FRÁBÆRT FRAMLAG TANNLÆKNA


Um það bil 25 tannlæknar og tanntæknar ásamt tannlæknanemum hafa gefið vinnu sína tvær helgar í röð í þágu barna og unglinga sem þurfa á tannlækningum að halda.

Í dag heimsótti ég Tannlæknadeild Háskóla Íslands, sem ásamt Tannlæknafélaginu stendur að þessu framtaki, sem í senn endurspeglar fórnfýsi og samfélagslegan velvilja þessara aðila. Eiga þeir lof skilið!
Aðsóknin var mikil, mér liggur við að segja óhugnanlega mikil. Hún segir okkur að núverandi kerfi virkar ekki fyrir tekjulítið fólk.
Það var að mínum dómi óheillaskref á sínum tíma að taka tannlækningar út úr skólunum. Þar með var dregið úr eftirliti og aðhaldi en rannsóknir sýna að á milli 10 og 20 % barna lenda utangátta ef velferðarþjónustan heldur þeim ekki í sínum faðmi með markvissu eftirliti. Þá má benda á að tannlæknakostnaður úr vasa sjúklings - einnig barna og unglinga - er orðinn svo mikill, vegna misræmis á gjaldskrá trygginga annars vegar og þess gjalds sem raunverulega upp er sett, að það er orðinn hemill á tekjulítið fólk að leita sér lækninga. Þessa niðurstöðu gef ég mér í ljósi reynslunnar annars vegar (vísa ég þar í nokkurra ára skýrslu frá Landlæknisembættinu) og svo hins sem ég varð áskynja í Tanngarði í dag, þ.e. að því er virtist óendanleg ásókn í ókeypis tannlækningar. Það vekur svo upp gamla en sígilda spurningu, hver sé munurinn á því að lækna mein í tannholi og í öðrum hlutum líkamans?
Ingibjörg S. Benediktsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, sagði mér að hún væri því sammála að líta eigi á tannlækningar eins og hverjar aðrar lækningar. Hún sagði að 60 börn hefðu komist að í þetta skiptið og það hefði þurft að loka dyrunum eftir 1 klukkustund. Hún sagði að tannlæknarnir hefðu verið miður sín eftir daginn því þörfin hefði verið svo yfirþyrmandi. Mér þótti athyglisvert í máli Ingibjargar að hún benti á að tannskemmdirnar hefðu ekkert með októberhrunið að gera - þær kæmu út úr "góðærinu". Þá hefðu meira að segja verið lækkaðir skattar á gos og sælgæti eins og til að kæta Karíus og Baktus!

Á myndinni að ofan má sjá hluta hópsins sem vann án endurgjalds í þágu þurfandi barna og unglinga og á myndinni að neðan eru ásamt mér nokkrir félagar úr VG ásamt þeim Ingibjörgu S. Benediktsdóttur, formanni Tannlæknafélags Íslands og Sigfúsi Þór Elíassyni prófessor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.
 

Fréttabréf