Fara í efni

HÉÐINN OG SAMVINNAN

Við Katrín Jakbobsdóttir, menntamálaráðherra sóttum sérstaka áfangahátíð í verkefni sem lýtur að heilsueflingu og forvörnum í framhaldsskólum. Þegar hafa 70% framhaldsskólanna komið að þessu átaki - alls 7000 nemendur en markmiðið er að allir skólar taki þátt í verkefninu á árinu. Þetta er í samræmi við heilsustefnu heilbrigðisráðauneytisns en auk þess koma Menntamálaráðuneytið, Lýðheilsustofnun, framhaldsskólar og nemendafélkög að verkefninu. Þetta er í annað skipti sem við Katrín sækjum atburði í tengslum við keppnina og tókum við þátt í keppni. Í fyrra skipti vann lið Heilbrigðisráðuneytis en lið Menntamálaráðuneytis að þessu sinni. Reyndar ráðast sigrarinr ekki af frammistöðu ráherra heldur liðsheildanna sem að þessu sinni voru nemendur annars vegar og kennarar hins vegar. Reyndust nemarnir betur á sig komnir en virðulegir kennarar þótt ég verði að segja að aðdáun mína vakti hve kröftugir einnig kennararnir voru.
Mest hafði ég þó gaman af veganestinu, eða hugarfóstrinu eins og samstarfsmaður minn í Heilbrigðisráðuneyti, Héðinn Unnsteinsson, kallaði það. Hann fékk mér í hendur nokkar línur á blaði áður en ég gekk að hátalara til að ávarpa samkomuna. Þar stakk Héðinn upp á því að skólanemar hugleiddu ritgerðarefni með því sem hann taldi verða meginþema komandi tíma. Þar yrði áherslan á að við hjálpuðum hvert öðru og yrði forskeytið SAM án efa fyrirferðamikið í orðaforða okkar næstu árin: Sam-vinna, sam-félag, sam-ábyrgð, sam-an, sam-staða, sam-ráð og nú væri að hefjast sam-keppni! Jafnvel samkeppni yrði með áherslunni á að gera hlutina saman. Skyldi þó ekki vera að Héðinn Unnsteinsson reyndist sannspár. Ég hallast að því.