Fara í efni

ÍSLAND ER HÁLENDI HUGANS!


Sumardaginn fyrsta fer ég ævinlega í Skátamessu í Hallgrímskirkju. Þetta er hluti af hefðinni í mínu lífi á þessum degi. Í bland geri ég þetta í minningu föður míns, Jónasar B. Jónssonar, sem á sínum tíma var skátahöfðingi Íslands og mikill áhugamaður um æskulýðsstarf, tók meðal annars mjög virkan þátt í uppbyggingarstarfi á Úlfljótsvatni, bæði sem frumkvöðull ásamt öðrum og síðan einarður baráttu- og hugsjónamaður um útivist og heilbrigt líferni. Til þess var tekið hve áhugasamur hann var um að tryggja aðkomu fatlaðra ungmenna að æskulýðsstarfi.

Ræðu dagsins í Skátamessunni að þessu sinni flutti listakonan María Ellingsen. Henni mæltist sérlega vel. Sótti efniviðinn víða, til ljóða Jónasar Hallgrímssonar og í speki suður í álfur, gott ef ekki var til Afríku þar sem spekingur hafði sagt að við værum líkleg til þess "að varðveita það sem við elskuðum; elskuðum það sem við þekktum og þekktum það sem okkur væri kennt." Boðskapurinn var augljós: Við ættum að hlú að fræðslu æskunnar. María vitnaði til þess að sjálf hefði hún notið uppfræðslu frá föður sínum um undur náttúrunnar, þegar hann hefði leitt sig "um móa og mel." Hún hefði síðan kynnst náttúru Íslands vel í skátastarfi og skoraði hún á skátahreyfinguna að standa vaktina fyrir íslenska náttúru sem oft ætti undir högg að sækja gagnvart skammsýnum stundarhagsmunum. "Landið er á okkar ábyrgð", sagði María Ellingsen og ættum við að hafa það hugfast að "Ísland er hálendi hugans!" 

Vel mælt.
Gleðilegt sumar.