KJARAJÖFNUN ER KJARABÓT

Birtist í Morgunblaðinu 18.04.09.
MBL - LogoÞví miður hafa kjör launafólks rýrnað. Verðbólga og okurvextir hafa séð um það. Hvað er til ráða? Verðbólgan er orðin að verðhjöðnun. Vaxtaokrið er enn við lýði. Peninganefnd Seðlabankans hefur ekki getað skýrt þá ákvörðun sína að viðhalda 15,5% stýrivöxtum. Vaxtaokrið hefur verið nefnt "tilvonandi fortíðarvandi" Þetta er umhugsunarverð áminning.

Ábyrgð gagnvart skuldurum

Okrinu verður að linna. Þeir sem stýra vöxtum verða að axla ábyrgð gagnvart lántakendum. Þá þarf að finna með hvaða hætti á að létta byrðar þeirra sem eru að kikna undan þeim. Hér þurfum við að vanda okkur því svigrúmið er takmarkað. Þegar hafa verið samþykkt lög um greiðsluaðlögun. Þau gefa andrými. Sama á við um lög sem styrkja réttarstöðu skuldara - erfiðara er nú að ganga að heimilum þeirra við gjaldþrot. Aukið andrými dugar þó ekki til. Frekari aðgerða er þörf. Ástæðan fyrir því að við þurfum að vanda okkur er sú að við höfum úr takmörkuðum fjármunum að spila - vitum reyndar ekki enn hverjir þeir eru - og þurfum að finna markvissustu formúlurnar.

Yfirvegun í stað óðagots

Talað hefur verið um að færa höfuðstól skuldara niður um tiltekið hlutfall, einnig um tiltekna krónutölu. Að mínu mati þarf að þróa þessa hugsun áfram þannig að hún taki til þeirra sérstaklega sem keyptu íbúð þegar húsnæðisverð - og í kjölfarið einnig verðbólgan - var í hámarki. Með öðrum orðum, tímasetning lántökunnar skiptir höfuðmáli. Markmiðið er að jafna kjör og aðstöðu þeirra sem urðu óðaverðbólgu og sprengingu á húsnæðismarkaði að bráð og okkar hinna sem sluppum að þessu leyti. En ég ítreka. Verst af öllu er óðagotið. Flumbrugangur síðustu ríkisstjórnar, í þeim ráðstöfunum sem hún á annað borð greip til, er ekki til eftirbreytni.

Sumir lækka - aðrir hækka

Síðan eru það launakjörin. Verðbólgan hefur sargað í þau, auk niðurskurðar. Hvað launin áhrærir er krafan afdráttarlaus. Stjórnendur í fyrirtækjum og stofnunum verða að hlífa þeim sem eru á lágum launum og meðaltekjum. Kjör þessara hópa verður að bæta. Hinir sem bera mikið úr býtum verða hins vegar að lækka. Kjarajöfnun þýðir að sumir lækka en aðrir hækka. Sá sem tekur 24 milljónir inn á ári fyrir hlutavinnu á að lækka. Sá sem er með 2 milljónir fyrir fulla vinnu á að hækka. Það er verkefni komandi kjarasamninga. Það á að vera leiðarljós stjórnenda. Þeir eiga að vernda störfin og bæta kjör lágtekjuhópa.
Kjarajöfnun á nefnilega að þýða kjarabót fyrir þá sem raunverulega þurfa á henni að halda.

Áformin eru skýr

Um þær aðferðir þarf að mynda þjóðarsátt. Í þessu sambandi eru áform ríkisstjórnarinnar tvíþætt: a) að stöðva uppboð og árásir á skuldara og b) nota andrúmið til að þróa aðferðir til að létta byrðarnar með sanngjörnum hætti. Þannig getum við komist út úr þeim tímabundnu vandræðum sem okkur voru sköpuð.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu aftur fyrir misskilning 22.04.)

Fréttabréf