Fara í efni

LYFJARISAR Í MÁL GEGN ÞJÓÐINNI

DV
DV

Birtist í DV 08.04.09.
Eitt fyrsta verk mitt sem heilbrigðisráðherra var að setja reglugerð um lækkun lyfjakostnaðar upp á 650 milljónir króna. Reynt var að búa svo um hnúta að þessi sparnaður kæmi ekki niður á sjúklingum heldur var kostnaðrþátttöku ríkisins og sjúklinga beint í hagkvæmasta farveg sem völ er á. Það þýddi að niðugreiðslur tækju til ódýrra lyfja í tveimur lyfjaflokkum þar sem völ er á fyllilega sambærilegri meðferð. Munurinn lyfjunum felst fyrst og fremst í mismunandi verðlagi.

Allir með nema ....
 

Í þeim örfáu undantekningartilfellum þar sem sjúklingar þola illa ódýrustu lyfin í þessum flokkum eiga þeir rétt á niðurgreiðslu lyfja sem þeim henta með rökstuðningi læknis.
Um þetta væri hægt að hafa mörg orð. Líka hitt, að í gær bárust mér í hendur upplýsingar um að kostnaður sjúkratrygginga eykst hraðfara og er útgjaldaaukningin umfram ásættanleg mörk. Meðal annars af þessum sökum hefur verið kallað eftir sameiginlegu átaki heilbrigðisstétta við að ná böndum á útgjöld til heilbrigðismála. Nær undantekningarlaust hefur verið tekið vel í þá málaleitan. Þar sem sem markaðslögmálin eru lítt heft er helst við ramman reip að draga.

Um lögin og réttlætið
 

En þótt almennt sé tekið undir sameiginlegt sparnaðarátak þjóðarinnar er það eins og í öðru að undantekningin sannar regluna. Hver skyldi það nú vera sem ekki vill vera með? Jú, það eru fulltrúar öflugustu lyfjafyrirtækja heimsins sem sýna fram á það með gjörðum sínum að þeim komi efnahagsþrengingar Íslendinga ekkert við. Það er nefnilega þannig að samtök stóru lyfjafyrirtækjanna sem flytja inn lyf til Íslands hafa nú kært íslenska ríkið fyrir ESA sem hefur það hlutverk að fylgjast með því að ekki sé brotið gegn heilagri ritningu markaðslögmála innan Evrópusambandsins. Er þetta hægt? Kannski lagalega en réttlætiskennd flestra okkar hlýtur að mæla gegn þessu háttalagi.

Agnarsmá í anda
 

Í kærunni er m.a. fundið að því að samfélagið leiti hagkvæmustu kosta við val á lyfjum! Þetta er þess vegna aðgerð af hálfu lyfjarisanna  sem stríðir gegn hagsmunum samfélagsins og alls almennings. Það vekur athygli að kærendur gera enga athugasemd við þá þætti fyrrnefndrar lyfjareglugerðar sem var íþyngjandi fyrir sjúklinga. Þetta segir okkur svolítið um forgangsröðun á þessum stórbýlum sem eru þegar allt kemur til alls agnarsmá í andanum.
Ögmundur Jónasson,
heilbrigðisráðherra