LYFJARISAR KÆRA OKKUR TIL BRUSSEL


Umhugsunarefni eru þær forsendur sem lyfjaheildsalar segjast byggja á þá ákvörðun sína að kæra nýlega lyfjareglugerð heilbrigiðsráðuneytisins. Reglugerðin kveður á um greiðsluþátttöku í ódýrustu lyfjunum í tveimur veigamiklum lyfjaflokkum, magalyfjum og blóðfitulyfjum.

Fyrir fólk eða fyrirtæki?

Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka segir á mbl.is (sjá slóð að neðan) að "íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi með setningu þessarar reglugerðar brotið allar grundvallarreglur á hinu Evrópska efnahagssvæði...Við erum sérstaklega mótfallin þeirri staðreynd að með þessari ákvörðun þá er í raun og veru aðeins eitt fyrirtæki sem situr að öllum markaðnum. Öllum öðrum fyrirtækjum er gert ókleift að vera með á þessum markaði og þar er hagsmunum sjúklinga kastað fyrir róða..."
Augnablik. Öllum er eftir sem áður heimilt að taka þátt í samkeppni. Þeir sem standa sig best og bjóða upp á gæðalyf á lægsta verði fá auk þess stuðning skattgreiðandans. Hvað er að þessu? Samkeppnin á að gagnast notandanum en samkvæmt framkvæmdastjóranum virðist ranglætið í því fólgið að eitt fyrirtæki sitji að þessum markaði.

Skjól gegn lýðræðinu

Annars er hugtakið fyrirtæki harla hógvært hugtak þegar haft er í huga að um er að ræða lyfjaauðhringi heimsins! Kannski ekki von að þau hafi hugann við þrengingar Íslendinga eða sýni því áhuga að taka þátt í þjóðarátaki til endurreisnar efnahagslífsins. Íslenskir umboðsaðilar gætu alla vega reynt að sýna lit í stað þess að hlaupa með kærumál á hendur þjóðinni suður til Brussel. Þar er helst að finna skjól fyrir bisnissfyrirtækin þegar lýðræðið sækir að þeim.
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/04/07/kaera_frumtaka_aras_a_thjod_i_threngingum/

http://www.smugan.is/frettir/nr/1558

http://www.dv.is/frettir/2009/4/7/lyfjarisar-kaera-islenska-rikid/

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/04/07/hagsmunir_sjuklinga_fyrir_roda/

http://ogmundur.is/annad/nr/4497/

Fréttabréf