SAMRÆÐA OG SAMSTARF TIL ÁRANGURS


Ágætur samstarfsmaður minn í Heilbrigðisráðuneytinu sagði eitt sinn við mig að vandinn við heilbrigðiskerfið væri sá, að starfsstéttirnar sem þar væri að finna og ráðuneytið töluðust yfirleitt ekki við fyrr en í aðdraganda kjarasamninga. Þá væri fólk ekki opið heldur nánast komið ofan í skotgrafir. Þetta kynni ekki góðri lukku að stýra enda væri þörf á opinni, frjórri og fordómalausri umræðu ef takst ætti að þróa kerfið markvisst til betri vegar.
Og ef við trúum því að leiðin að því marki sé að fá alla með - virkja lýðræðið - og sköpunarkraftinn, sem í því býr, þá þurfum við á slíkri umræðu að halda. Það er mín sannfæring að einmitt þessa þörfnumst við nú  - sem aldrei fyrr.

Með þessa hugsun að leiðarljósi  hafa fundirnir verið, sem efnt hefur verið til um allt land að undanförnu með heilbrigðisstarfsfólki, einstökum starfsstéttum, trúnaðarmönnum, stjórnenduum heilbrigðisstofnana, sveitarstjórnarmönnum og nú síðast með þverfaglegri umræðu allra heilbrigðisstétta um hvað betur megi fara í heilbrigðiskerfinu.
Í hógværð heimasíðu Heilbrigðisráðuneytisins segir að 150 manns hafi sótt fundinn en ég leyfi mér að halda því fram að fjöldinn hafi verið ívið meiri.Vinnudagurinn heppnaðist með ágætum og heyrðist mér fólk hið ánægðasta. Alla vega gildir það um sjálfan mig því ég hafði ekki bara ánægju af þessum fundi heldur líka verulegt gagn. Verði framhald á minni veru í Heilbrigðisráðuneytinu er þetta aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal.
Sjá nánar: http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/3023

Fréttabréf