Fara í efni

ÉG HELD MEÐ LÝÐHEILSUSTÖÐ - EKKI NEYTENDASAMTÖKUNUM


Það gleður mig hve margir taka undir með áherslum Lýðheilsustöðvar og öllum öðrum þeim sem vilja snúa vörn í sókn gegn offituvánni og glerungseyðingunni af völdum sykurdrykkja.
Sumir eru á öndverðum meiði, allháværir en ekki fjölmennir. Al Capone, hinn yngri (væntanlega), skrifar mér ( https://www.ogmundur.is/is/greinar/kvedja-fra-bannarunum) og gagnrýnir meinta forræðishyggju. Al er í fámennum hópi sem vill ekki forræðishyggju í formi "neyslustýringar".    

Hvers konar neyslustýring?

Staðreyndin er sú að við búum við neyslustýringu, foræðishyggju! Spurningin er hvernig neyslustýringin eigi að vera, í þágu hverra, markaðshagsmuna eða samfélagsins.
Við niðurgreiðum mjólk sem ella væri miklu dýrari. Þetta gerum við til að stuðla að því að börn og unglingar drekki mjólk og neyti annarrar hollustuvöru í uppvextinum. Fyrir stuttu síðan voru álögur á sykraða gosdrykki lækkaðir að kröfu söluaðila. Hvers vegna? Væntanlega til að auka neysluna. Þannig er óhollustu beinlínis verðstýrt ofan í þjóðina. Viljum við það? Ekki ég.
Þeir sem best þekkja til segja að óhollustan leiði til lakara heilsufars sem svo aftur lendir á okkur öllum sem skattgreiðendum. Ég vil gjarnan sleppa við skatta sem hægt er að komast hjá að greiða. Þetta vil ég gera með fyrirbyggjandi aðgerðum. 

Neytendasamtökin á móti börnum?

Neytendasamtökin eru þessu ekki sammála. Á hvaða róli skyldu þau samtök vera í þessu samhengi? Er markmiðið það eitt að fá verð niður á öllum sviðum? Sama hver varan er, kók eða mjólk? Ég spyr hvort búið sé að úthýsa allri samfélagshugsun úr þessum samtökum? Eru þau á móti börnum? Ég er félagi í Neytendasamtökunum. Ég mótmæli þessari afstöðu félagsins míns. Hvort höldum við með söluhagsmunum Vífilfells eða heilsufari ungviðis þjóðar vorrar? Ég held með ungviðinu og heilsufarinu.

Í þessari grein eru fleiri tengingar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/og-svo-verda-bornin-rolegri