VIÐAR Á Nei.is


Góða grein eftir Viðar Þorsteinsson er að finna á Nei.is. Ég les ævinlega af athygli það sem Viðar hefur að segja og er grein hans nú engin undantekning hvað ágæti varðar: Að þessu sinni frábært framlag inn í umræðuna um Evrópusambandið.
Viðar spyr um hagsmuni, annars vegar almannahagsmuni og lýðræði, hins vegar hagsmuni fjármagns. Sjá grein VÞ hér: http://this.is/nei/?p=5394

Umgjörð lýðræðis

Nokkur orð langar mig til að setja í púkkið. Viðar varar við því að við byggjum lýðræðis- og réttindabaráttu á grundvelli þjóðríkisins.
Í þessu sambandi langar mig til að minna á fyrri skrif okkar beggja um þetta efni. Ég tel nefnilega að nálgun hinnar nýju alþjóðahyggju sem Viðar vísar gjarnan til og  sem vill koma þjóðríkinu fyrir á minjasafni liðins tíma, vanræki að finna lýðræðinu farvegi sem duga. Einsog málið horfir við mér eru sveitarfélög og þjóðríki umgjarðir fyrir lýðræðið enda  reynir alþjóðakapitalið allt hvað það getur til að koma hvoru tveggja fyrir kattarnef. Það er engin tilviljun að hamast er gegn þjóðríkinu í Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, í Evrópusambandinu og öðrum samkundum þar sem alþjóðlegt fjármagn hefur komið ár sinni fyrir borð. Hjá ESA og Evrópudómstólnum sitja flokkar manna sveittir yfir því daginn inn og daginn út að færa sönnur á að félagsleg úrræði sveitarfélaga og ríkis standist ekki markaðssáttmála Evrópusambandsins.
Ég vísa hér í tvær slóðir af umfjöllun um þetta efni, sem margoft hefur verið fjallað um hér á síðunni.:
http://www.ogmundur.is/samfelagsmal/nr/911/
http://www.ogmundur.is/annad/nr/1973/ 
 

BSRB og alþjóðasamstarfið

Tvennt langar mig til að leiðrétta í grein Viðars. Það er ekki rétt að íslensk verkalýðshreyfing hafi hunsað World Social Forum og ámóta viðburði. "Tilraunir á borð við WSF hafa farið hljótt á Íslandi...Íslensk verkalýðsfélög hafa ekki sent þangað fulltrúa...".
Þessi staðhæfing stenst ekki. Hið rétta er að BSRB hefur bæði sent fulltrúa á European Social Forum sem er nátengt World Social Forum, tekið þátt í róttæku alþjóðasamstarfi og séð til þess að um það sé fjallað á vettvangi samtakanna. Þar höfum við m.a. notið krafta félaga okkar Einars Ólafssonar og margra annarra góðra félaga í BSRB. Sjá m.a. skrif hans, Önnu Atladóttur, Þuríðar Einarsdóttur, Páls H. Hannessonar og annarra í BSRB-tíðindum og á vefsíðu samtakanna http://www.bsrb.is/  og í ritum aðildarfélaga bandalagsins.
Páll hefur sinnt starfi alþjóðafulltrúa BSRB og verið óþreytandi að veita upplýsingastraumum gagnrýninnar hugsunar inn á vettvang samtakanna. Þá má geta þess að BSRB á aðild að PSI, Public Service International, Alþjóðasambandi starfsfólks í almannaþjónustu, án efa róttækasta starfandi alþjóðasambandi veraklýðsfélaga. Fulltrúar PSI og annarra samtaka einnig hafa verið fengnir hingað til lands upplýsingum og þekkingu og vekja okkur öll til gagnrýninnar vitundar og vakningar. 
Um allt þetta hefur mikið verið fjallað hjá BSRB. Það var vegna áherslu sem BSRB vildi leggja á alþjóðastarf af þessu tagi að ráðinn var sérstakur alþjóðafulltrúi sem  áður er nefndur. Í verki hafa samtökin líka beitt sér, sbr. herferðina gegn einkavæðingu vatnsins! (Um þetta og margvíslegt efni um vatn má lesa á síðu BSRB: http://www.bsrb.is/erlent/vatn-fyrir-alla/ ) Þess má geta í þessu samhengi að alþjóðafulltrúi BSRB var til staðar og lét til sín taka á ráðstefnu World Water Forum í Mexíkó 2006 en þar var hart sótt fram gegn markaðsöflunum, m.a. fyrir tilstilli PSI sem lagði áherslu á vatn í almannaeign og aukið samstarf opinberra vatnsveitna um heim allan. Í vatnsherferðinni hér á landi þar sem BSRB hafði forystu voru fengnir sérfræðingar til landsins, gefnir út bæklingar um afleiðingar markaðvæðingar vatns í svipuðum dúr og áður hafði verið gert varðandi símann, rafmagnið og heilbrigðisþjónustuna sem peningavaldið hefur viljað koma upp á einkavæðingarfæribandið.
En varðandi European Social Forum læt ég nægja að vísa í skrif Páls Hannessonar um ESF á Ítalíu 2002 (http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/457/ ), en hann var einnig til staðar, í London 2004 eins og lesa má um í BSRB tíðindum (janúar 2005), sbr. http://www.bsrb.is//files/%7Bc97c27c0-a84c-4891-bfea-2dc20cc5f0e2%7D_jan2005.pdf og í Malmö, Svíþjóð sl. haust.

VG hefur látið í sér heyra!

Þá staðnæmist ég við eftirfarandi í grein Viðars: "Á sama tíma má hins vegar öllum ljóst vera að Evrópusambandið er ríkjasamband búið til utan um hugmyndafræði vestræns kapítalisma: frelsi auðmannastéttar til auðsöfnunar auk heimsvalda og frjálslynds lýðræðis á heimaslóð. Það mætti meira að segja færa fyrir því skynsamleg rök að vandi Íslands og Íslendinga, þ.e.a.s. óheftur kapítalismi síðustu ára, sé að miklu leyti runninn frá evrópskri markaðsvæðingu undir EES-samningnum - en slíkt tal fellur auðvitað utan pólitískra meginstrauma og heyrist ekki einu sinni hjá Vinstri grænum."
Ég skrifa upp á inntak þessarar klásúlu en ekki niðurlagið og leyfi ég mér að vísa í eigin greinaskrif sem eru orðin talsverð að vöxtum um nákvæmlega þetta efni. Hér eru slóðir á tvær tiltölulega nýlegar greinar frá síðasta sumri en í riti og ræðu (á Alþingi og víðar) hef ég hamrað á því að markaðshyggjan hafi öll undirtök í ESB.
http://www.ogmundur.is/allar-greinar/nr/3983/
http://www.ogmundur.is/annad/nr/3986/
 

Þakkir

Það er alltaf hressandi að heyra frá Viðari Þorsteinssyni. Í þeim anda set ég þessar línur á skjá; til að sýna viðbrögð og um leið þakklæti við uppbyggilegum og áhugaverðum skrifum. Um það sem ég er Viðari sammála ræði ég ekki í þessum línum en vek athygli á því sem ég tel ekki alveg rétt með farið og þar sem okkur greinir á efnislega.

Fréttabréf