Fara í efni

FULLVELDIÐ, LÝÐRÆÐIÐ OG FRELSIÐ


Ég óska lesendum síðunnar gleðilegrar þjóðhátíðar. Megi dagurinn verða okkur tilefni til að íhuga allt það góða og jákvæða sem við sem þjóð höfum fengið áorkað. Íslendingar búa yfir frjóum og gjöfulum meninngararfi. Við skulum leggja rækt við hann sem aldrei fyrr því menningin eflir með okkur samstöðu og baráttuþrek; viljann til framfara.
Á síðustu öld byggðum við upp grunn að öflugu velferðarsamfélagi á Íslandi. Þann grunn þarf nú að verja. Það gerum við aðeins í sameiningu. Til þess þurfum við að geta ráðið ráðum okkar sjálf. Við þurfum sjálfstæði til ákvarðana og athafna. Það er kjarni fullveldisins.
Nú er vegið að fullveldi Íslendinga. Við ráðum okkur sjálf aðeins að takmörkuðu leyti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, í umboði fjársterkustu ríkja heimsins, setur okkur lífsreglurnar. Verkefnið framundan er að endurheimta fullveldið. Það er ramminn um lýðræðið og þar með freslið.