MEÐ ÞJÓÐARHAG AÐ LEIÐARLJÓSI

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins "sömdu" okkur út í hafsauga í
Icesave deilunni síðastliðið haust. Ýmsir lögfræðingar og
þjóðréttarfræðingar hafa alla tíð sagt að ekki hafi verið um
eiginlegan samning að ræða heldur yfirlýsingu sem þvinguð var fram
á upplausnarstundu - auk þess sem hún byggði ekki á lýðræðislegum
vilja.
Síðan hefur verið reynt að ná betri niðurstöðu. Slík niðurstaða er
nú til umræðu á Alþingi og í þjóðfélaginu. Ekki er vitað hvaða
afstöðu Sjálfstæðismenn á Alþingi koma nú til með að taka. Ég geri
ekki kröfu til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins máti sig við
sínar fyrri gjörðir þótt óneitanlega væri trúverðugt að þeirra væri
minnst í málflutningi.
Reyndar geri ég enga kröfu á Sjálfstæðismenn sem eina hjörð. Nú ber
einmitt hverjum og einum, sjálfum, að taka afstöðu
til þessa máls á grundvelli mjög vel ígrundaðra raka. Hrunið byggði
á hjarðhugsun. Hún reyndist vera leið til glötunar.
Nú er þjóðarhagur í húfi. Menn hafa spurt hvort núverandi
ríkisstjórn komi til með að standa eða falla með þessum samningi.
Til langtíma litið er spurningin fráleit. Málið er miklu stærra en
að menn eigi að leyfa sér að hugsa á þennan veg.
Þessi ríkisstjórn er staðráðin í að starfa áfram óháð því hver
niðurstaðan verður í Icesave málinu. Að mínu mati getur enginn
Íslendingur leyft sér - hvort sem er innan þings eða utan að taka
afstöðu í þessu máli á öðrum forsendum en samkvæmt sinni eigin
ítrustu dómgreind og með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga. Þetta
á við hvort sem um er að ræða stjórnarsinna eða
stjórnarandstæðinga.
Á næstu dögum hljótum við öll að sameinast í málefnalegri og
yfirvegaðri umræðu sem byggir á þjóðarhag. Að mínu mati eiga engar
flokkslínur að halda í þeirri umræðu.