Fara í efni

UM SIÐFERÐI BRETA


Ýmislegt hefur verið skrifað um mismunun sparifjáreigenda á Mön og Guernsey, bæði hvað varðar Northern Rock útibúin, Bradford & Bingley, Kaupthing Singer&Friedlander og Heritable Bank Guernsey. Þar eru ekki öll kurl komin til grafar en barátta sparifjáreigenda þeirra sem telja sig hafa borið skarðan hlut frá borði rétt að hefjast. Margir telja að bresk stjórnvöld hafi gerst sek um alvarlega mismunun, í meðferð þessara mála.

Eitt mál ber hátt í Bretlandi um þessar mundir en það er barátta hundruða þúsunda eftirlaunaþega, sem hafa tapað sparifé sínu úr eftirlaunasjóðum, sem áttu að vera tryggðir af breska ríkinu. Frægasti sjóðurinn er Equitable Life (með eina og hálfa milljón félaga) sem varð nánast gjaldþrota fyrir um tíu árum síðan og hefur síðan verið í umsjón ríkisins. Þann 21. febrúar 2007 var kveðinn upp dómur í London um það að ríkinu bæri að bæta sjóðfélögum tjón vegna skorts á eftirliti yfirvalda annars vegar og hins vegar vegna þess að yfirvöld höfðu gefið það út að ríkið ábyrgðist sjóðinn. Breska ríkið taldi að sú yfirlýsing hefði verið misskilin af sjóðfélögum. Í sama mánuði kvað Evrópski Mannréttindadómstóllinn einnig upp dóm í málinu og komst að þeirri niðurstöðu að tregða breska ríkisins við að greiða skaðabætur væri brot á Evróputilskipunum.

En breska stjórnin akvað að taka ekki mark á úrskurði Evrópudómstólsins, né heldur samhljóða úrskurði Umboðsmanns þingsins og áfrýja dómsúrskurði (High Court Ruling) til Lávarðadeildarinnar. Niðurstöðu Lávarðadeildar er að vænta fljótlega.

Vegna þessarar tregðu stjórnvalda hafa fjölmargir eftirlaunaþegar þurft að búa við mikla fátækt og stjórnvöld hagnast ennfremur á drætti þar sem margir rétthafar deyja á meðan beðið er.

Siðferðislega er hegðun stjórnvalda ámælisverð, ekki síst sú ákvörðun að hlíta ekki dómsniðurstöðum. Siðferði Breta virðist því meira vera
til sýnis en notkunar.

Um þetta má lesa á http://www.emag.org.uk/ og á hansard síðu breska þingsins.