Fara í efni

DÓMSDAGUR?


Franek Rozadowsky, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, sagði í fréttum um helgina að "gjafaþjóðirnar" (donors) hikuðu við að rétta Íslendingum hjálparhönd vegna tregðu okkar að undirgangast Icesave skuldbindingarnar.
Smám saman er það að renna upp fyrir "gjafaþjóðunum" að Alþingi mun ekki samþykkja Icesavedrögin án þess að settir verði fyrirvarar við þau. Ella yrðu þau að öllum líkindum felld.

Gjaldeyrisforðinn og Landspítalinn

Í hverju er svo aðstoð hinna "gjöfulu" vinaþjóða fólgin? Ekki gefa þær okkur peninga svo mikið er víst. Aðstoðin er fólgin í því að lána Íslendingum fjármuni, samkvæmt forskrift AGS, sem nema rúmum 5 milljörðum Bandaríkjadala til að koma upp gjaldeyrisforða. Það er nokkuð vel í lagt fyrir rúmlega 300 þúsund manna þjóð. Ekki síst þegar litið er til þess að hreinn vaxtakostnaður af svo risavöxnum forða er 12 milljarðar íslenskra króna á næsta ári. Síðan á eftir að bæti í og má ætla nettóvaxtakostnaður af lánumum til gjaldeyrisforðans nemi að minnsta kosti 18 ,7 milljörðum króna árlega! Það þarf að skera talsvert niður á sjúkrahúsum Íslands til að ná þeirri upphæð! Tilgangurinn er að aflétta gjaldeyrishöftum og gera okkur að nýju gjaldgeng í hinu alþjóðlega markaðshagkerfi. Þá sjá fjölþjóðasamsteyuprnar fram á að hægt verður að halda áfram að nýta landsins gagn og nauðsynjar. Jökulsárnar í Skagafirði hljóta að freista, Þjórsá, kannski Gullfoss? Þannig hefur AGS alltaf sett dæmið fram við þjóðir í nauð: Þið eigið auðlindir. Þess vegna getið þið borgað!

Íslendingar beygi sig í duftið

En peningahirslur "gjafaþjóðanna" verða ekki opnaðar fyrr en Íslendingar hafa undirgengist mörg hundruð milljarða ríkisábyrgð vegna Icesavesamkomulagsins sem vegna yfirburðastöðu hinna sterku - þeirra sem hafa AGS og ESB að bakhjörlum - er sniðið að hagsmunum Breta og Hollendinga.
"Vinaþjóðin" Svíar, sem nú fara með formennsku í ESB hafa tekið að sér að fínstilla norræna vinakórinn sem nú kyrjar einum rómi: Enga aðstoð til Íslands fyrr en Íslendingar lúta gömlu nýlenduherrunum í Haag og London.

Nú þarf rétta forgangsröðun og framtíðarsýn

Auðvitað væri eftirsóknarvert að hafa sterkan gjaldmiðil og óheft gjaldeyrisflæði og allt í lukkunnar velstandi. Þannig getur það hins vegar ekki verið þessa dagana. Nú gildir raunsæi við forgangsröðun og ískalt mat á hvað tryggir okkur best til framtíðar. Ég er sannfærður um að fullveldisbaráttan - sem við óneitanlega heyjum nú sem sjaldan fyrr - eigi að ganga út á eitt fyrst og fremst:
Halda skuldum ríkissjóðs vegna endurreisnar banka, vegna gjaldeyrisforða og vegna Icesave í eins miklu lágmarki og kostur er.
Allt tal um að dómsdagur renni upp ef við fáum ekki 5 milljarða dollara lán með hraði er ekki á rökum reist. Okkar dagar kunna að verða erfiðir en Dómsdagur verður það ekki.

Látum ekki stilla okkur upp við vegg -plan B er til!

Ef við hins vegar hlöðum á þjóðina endalausum skuldum að kröfu AGS og "gjafaþjóðanna" þá gætum við hæglega lokast inni í skuldafangelsi!
Að mínu mati eigum við ekki að láta erlendar þjóðir eða hagsmunaaðila hér innanlands stilla okkur upp við vegg.
Hvert er þá plan B? Þannig tíðkast að spyrja einsog menn hafi það alveg á hreinu hvað plan A sé og hverjar afleiðingar það hefur í för með sér.
Ég hef þá sannfæringu að plan B verði alltaf til þegar liggjandi maður rís á fætur og svarar fyrir sig - sem jafningi við jafningja. Þá skapast einfaldlega nýjar aðstæður.

Að verja eignafólk eða hina eignalausu?

Íslenskir fjármálamenn hafa farið illa að ráði sínu og við sem samfélag verðum að súpa seyðið af því. En þegar kemur að því að velja hvort eigi að gæta hagsmuna eignafólks eða hinna sem ekkert eiga, þá veit ég hvar ég stend.