Fara í efni

AÐ VERÐSKULDA VÖLD


Í nær tvo áratugi var farið að flestum kröfum Samtaka atvinnulífsins og Verslunarráðsins, forvera núverandi Viðskiptaráðs, um áherslur í atvinnumálum og hönnun lagaumgjarðar fjármálalifsins á Íslandi. Forsvarsmenn þessara samtaka voru í hópi helstu leiðsögumanna þjóðarinnar út í fúafen frjálshyggjunnar.
Maður hefði ætlað nú eftir hrunið að slíkir aðilar temdu sér hógværð í málflutningi. Af viðtali við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Sjónvarpsfréttum í kvöld að dæma, hafa þessir aðilar ekkert lært.
Hannes var stóryrtur í garð ríkisstjórnarinnar fyrir "að draga lappirnar" í endurreisnarstarfinu. Á hvern hátt skyldu stjórnvöldin draga lappirnar að mati SA? Þau vilja ekki, að sögn aðstoðarframkvæmdastjórans, að stóriðjustefnunni verði áfram hrundið fram af sama offorsi og til þessa (með geigvænlegri skuldsetningu orkufyrirtækjanna), þau vilji ekki hleypa erlendum fjárfestum í orkuiðnaðinn og þau vilji ekki virkja Þjórsá! Allt þetta vill Hannes ólmur að gert verði í snarhasti. Álíka ólmur er hann - og félagar hans í atvinnurekendasambandinu - og þeir voru áður fyrr að einkavæða bankana, Landssímann, Rafmagsneftirlitið, heimila lífeyrissjóðum að ráðast í skortsölubrask og svo framvegis....
Finnst fréttastofu Sjónvarps ekki ástæða til að spyrja þessa fyrrum dansherra í Hrunadansi undangenginna ára hvort þeim finnist sjálfum - svona innst inni - að þeir verðskuldi að vera teknir alvarlega; að þeir verðskuldi þau völd og áhrif sem þeir krefjast?
Sjá frétt: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4497746/2009/09/10/1/