Fara í efni

NÚ HLUSTUM VIÐ Á LÆKNA


„Það sker mig í hjartað að sjá unglinga reykja úti á götu. Tölurnar segja okkur að annar hver eigi eftir að deyja vegna reykinga. Það er hræðilegt að horfa upp á fólk á besta aldri fá ólæknandi sjúkdóm og deyja frá litlu börnunum sínum af völdum reykinga.“

Þetta segir Sigríður Ólína Haraldsdóttir, lungnasérfræðingur á lungnadeild Landspítalans og formaður Tóbaksvarnaráðs. Meirihluti sjúklinganna á lungnadeildinni reykir eða hefur reykt. Þeir þjást af lungnaþembu, lungnateppusjúkdómum og lungnakrabbameini, að sögn Sigríðar.”
Þetta var upphaf forsíðufréttar Morgunblaðsins síðastliðinn fimmtudag. Þar var einnig vitnað til upplýsinga frá Lýðheilsustöð m.a. um dauðsföll af völdum reykinga.
Upp í hugann komu bílarnir tveir, sundurtættir hvor andspænis öðrum ofan á gámi eða einhveju slíku, sem blasa við sjónum þegar ekið er upp á Hellisheiðina. Stórum stöfum segir frá hve mörg dauðaslys hafi orðið í umferðinni það sem af er ári. Nú stendur talan í tíu. Yfirleittt endar talan á milli tuttugu og þrjátíu. Dauðatalan vegna reykinga er nokkru hærri. Hún er fjögur hundruð - 400  - yfir árið!
Sigríður Ólína Haraldsdóttir segir í fyrrnefndri Morgunblaðsfrétt að oftar en ekki verði sjúklingar undrandi þegar þeim er greint frá því að lungnasjúkdómar þeirra stafi af reykingum. „Þeir segjast ekki hafa vitað að þetta væri svona hættulegt. Reykingar eru einnig einn aðaláhættuþáttur kransæðasjdóma og heilablóðfalls. Þetta eru allt alvarlegir sjúkdómar sem erfitt er að ráða við. Þótt dregið hafi úr reykingum sýna kannanir að enn reykir stór hópur ungs fólks. Leggja þarf áherslu á að það byrji ekki að reykja þar sem það virðist ekki tengja reykingar við sjúkdóma.“
Ég er sammála Sigríði. Og ég er líka þakklátur Læknafélagi Íslands fyrir að efna til sérstaks þings – hins fyrsta í sinni röð – til að vekja til umræðu um tóbaksvána. Læknarnir og annað heilbrigðisstarfsfólk er næst okkur þegar  við verðum veik. Þá einnig af sjúkdómum af völdum reykinga. Þegar þetta fólk talar þá hlustum við.