NÚ ÞARF YFIRVEGUN - UM ICESAVE


Icesave er aftur á dagskrá. Samningurinn er slæmur. Betri en í vor. Miklu betri. Verri en að loknu sumarþingi. Betri en í síðustu viku. Þá gekk ég úr ríkisstjórn. Til að mótmæla málsmeðferð og því að samþykkja samning sem svipti Ísland rétti til að véfengja greiðsluskyldu okkar gegn ofbeldiskröfum Breta og Hollendinga. Þessu hefur nú verið breytt til betri vegar. Það er mikilvægt. En er það nógu mikilvægt?

Hvað er til ráða? Hjartað segir mér að réttast væri að fella samninginn. Skynsemin býður mér að fara varlega. Segir að það leiði ekki endilega til "réttari" og betri niðurstöðu.

Eru hróp stjórnarandstöðu trúverðug? Hvað myndi hún gera væri hún í Stjórnarráðinu? Sama og Sjálfstæðisflokkurinn gerði síðastliðið haust? Þá samþykkti hann að borga Icesave reikninginn. Að vísu var hann í öngviti - nánast. Einsog þjóðin öll. Er hann með fullri meðvitund nú?

Gefum okkur að Sjálfstæðisflokkurinn sé með fullri meðvitund. Hvað er hann líklegur til að gera komist hann til valda? Því það er raunhæfur möguleiki ef ríkisstjórnin sprengir sig í loft upp. Hið sama og hann gerði undanfarin tuttugu ár? Tvo undangengna áratugi við stjórnvölinn í Stjórnarráðinu? Muniði einkavæðingu bankanna, Kárahnjúka, Póst og síma, Schengen, skattkerfisbreytingarnar fyrir efnafólkið, einkavæðingu í heilbrigðiskerfi, árásirnar á lágtekjufólk, Írak, Afganistan ....Nú þarf að hugsa. Af yfirvegun. Um Icesave.

Nokkrir tenglar frá í dag:

http://www.dv.is/frettir/2009/10/18/ogmundur-islendingar-vidurkenna-ekki-greidsluskyldu/ 

http://www.dv.is/frettir/2009/10/18/utanrikisradherra-afsogn-ogmundar-skipti-miklu/

  http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/10/18/ogmundur_jakvaedar_breytingar_en_of_snemmt_ad_lysa_/

Fréttabréf