Fara í efni

UM ÁBYRGÐ OG ÁBYRGÐARLEYSI


Það sem ég hef heyrt af ræðu Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra  á aðalfundi ASÍ þótti mér gott. Mjög gott. Inntakið var að hann bæðist undan kvörtunum álfursta og útgerðarauðvalds, sem nú beri sig illa yfir því að þurfa að greiða til íslensks samfélags í samræmi við burði og getu.

Styðjum félagsmálaráðherrann

Þessir aðilar hafa brugðist illa við tölu félagsmálaráðherrans. Við skulum ekki gleyma því í hvaða stöðu hann er. Hann stýrir ráðuneyti sem hefur almannatryggingar og þar með kjör öryrkja og atvinnulausra á sinni könnu. Þar hefur verið skorið niður sem aldrei fyrr. Félagsmálaráðherrann finnur fyrir köldum andardrætti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og fleiri. Það er skiljanlegt að hann gerist harðorður í garð stóriðjufyrirtækja sem ekki tíma að borga til samfélagsins. Því minna sem þau borga þeim mun meira þarf hann að skera niður.
Gleymum því ekki að álfyrirtækin hafa notið góðs af stórfelldri skattalækkun á undanförnum árum. Á síðustu tveimur áratugum hefur tekjuskattur fyrirtækja verið lækkaður úr 50% í 15%. Ekki er ýkja langt síðan hann stóð í 30%. Samt væla álfyrirtækin og skammast yfir því að greiða brot af þessu til baka. Er hægt að taka þennan mannskap alvarlega? Eða þá aðila á vinnumarkaði sem mæla honum bót? Getur verið að verkalýðshreyfingin ætli að stilla sér upp með hinum burðugu á móti öryrkjunum? Getur það verið? Nú þarf ríkisstjórnin að sýna staðfestu. Standa með Árna Páli Árnasyni, félagsmálaráðherra. Það geri ég.

Um reiknimeistara og ....

Ég skora á fjölmiðla að reikna út hvað 20 - 30 aura hækkun á kílówattstund eins og um er rætt, þýðir í reynd. Mér skilst að þar séum við að tala um tvo til tvo og hálfan milljarð á allan áliðnaðinn á ári. Ef við hins vegar lítum á skattalækkanir sem áliðnaðurinn hefur notið góðs af á allra síðustu árum, úr 30 í 15%, þá er það eftir því sem ég kemst næst hærri upphæð í eftirgjöf en nú er óskað eftir í almannahirslurnar. Ég slæ á þrjá til fjóra milljarða! Hvað segja fréttastofurnar? Þær verða að leiða þetta í ljós. Hvað segja aðilar vinnumarkaðar? Þeir hljóta að vera búnir að reikna. Skattur á stóriðju er settur á fyrir hönd ríkissjóðs sem á í nauðvörn, í byrjun efnahagskreppu sem álfyrirtækin finna minna fyrir en mörg önnur fyrirtæki vegna erlendra viðskipta sinna og veikrar stöðu gjaldmiðilsins.

....vitorðsmenn

Fjölmiðlar verða að kveðja til sín reiknimeistara og kannski einn siðfræðing eða svo til að spyrja hvort framferði stórkapítalsins flokkist undir siðferðisbrest eða félagslegan glæp. Ég hallast að hinu síðarnefnda og bið góðar vættir um að forða öllum frá því að gerast vitorðsmenn.