HVER MÁ SKRIFA UM HVERN?
Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins og innsti koppur í
búri Sjálfstæðisflokksins, skrifar bók um efnahagshrunið á Íslandi.
Ég er beðinn um að skrifa ritdóm um bókina. Ég tek þeirri ósk vel
enda bókin áhugaverð. Ýmsar upplýsingar þar að finna sem mér þykja
markverðar.
Bannað að sjá hvítan blett á andstæðingi
Í bókinni kemur fram ákveðið uppgjör við það valdakerfi sem
ritstjórinn hafði verið hluti af og sett er fram róttæk sýn á
lýðræðið og krafa um að þjóðfélagið verði opnað upp á gátt. Öðru
vísi mér áður brá. Í ritdómi mínum nefni ég dæmi þar að
lútandi.
Um allt þetta fjalla ég eftir bestu getu. Kemst að þeirri
niðurstöðu að bókin sé eftirsóknarverð um margt og vel skrifuð. Á
þessum forsendum hrósa ég henni.
Ha, hvað er að gerast, er þingmaður VG að hrósa fyrrum ritstjóra
Morgunblaðsins? Af þessu sprettur þó nokkur umræða á netinu. Ekki
um bókina eða ritdóm minn. Nei, um þá staðreynd að ég sé yfirleitt
að skrifa ritdóm um bók eftir þennan tiltekna höfund og það sem
verra er - að ég skuli yfirleitt sjá á honum hvítan blett. Slíkt
hlýtur að teljast daður við Sjálfstæðisflokkinn og hljóti ég að
vera hallur undir þann stjórnmálaflokk! Kannski er ég að reyna að
koma á ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokks? Þeir sem þekkja til
innri sögu þeirra flokka og hreyfinga þar sem ég hef haft pólitíska
búsetu, vita sem er, að aldrei hef ég verið í þeim hópi sem hvatt
hefur til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þvert á
móti!
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er pólitískur
kærasti
Merkilegast er að sjá og heyra vandlætingartalið frá þeim sem
sjálfir hafa verið í pólitískri sambúð með Sjálfstæðisflokknum. Þá
var hann bara fínn, eða hvað? Og þá væntanlega í góðu lagi að
skrifa ritdóma um bækur úr þeirri áttinni.
Hvernig væri að reyna að hefja umræðu í landinu yfir karp og meting
á milli pólitískra kirkjudeilda og ræða þess í stað um
málefni?
Það er náttúrlega erfiðara að taka afstöðu til bókar og ritdóms um
hana en að fella pólitíska palladóma um höfund og ritrýni. Það er
erfiðara vegna þess að þá þurfa menn að hafa fyrir því að kynna sér
málin.
---------------------------------------------------------------
Fjörug umræða á eyjunni,is (þakka vinsamleg ummæli):
http://ordid.eyjan.is/2009/12/04/ogmundur-hrosar-bok-styrmis/#comments