Í ÓRAFJARLÆGÐ FRÁ VERULEIKANUM

Pressan.is
slær upp getgátum Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, um að ég
og Össur Skarphéðinsson, höfum skipulagt mótmælin gegn stjórnvöldum
sem urðu til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
hrökklaðist frá völdum.
Jón Magnússon skrifaði: "Áður en átökin urðu hörð
höfðu Steingrímur J. Össur og Ögmundur lagt á ráðin um myndun
nýrrar ríkisstjórnar. Nú hefur byltingin étið fyrsta barnið sitt
Ögmund Jónasson sem rekinn var úr ríkisstjórninni.
Hvernig stóð á því að óeirðirnar fóru gjörsamlega úr
böndum eftir samkomulag þremenninganna?
Sumir segja að þar hafi óeirðaöflin í VG undir forustu
heilbrigðisráðherra og skrímsladeildin í Samfylkingunni undir
forustu utanríkisráðherra skipulagt aðför að sitjandi stjórnvöldum
til að ná fram samstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar.
"
Það er ekki nóg með að þetta sé algerlega úr lausu lofti gripið
heldur gefur þetta innsýn í hugarheim sem er úr öllu jarðsambandi
við veruleikann - í órafjarlægð við hjartsláttinn í samfélaginu.
Þessi hugsun byggir á því, að öllu - bókstaflega ÖLLU - hljóti að
vera stýrt að ofan. Ekkert geti orðið til - mótast og þróast - í
smiðju almennings. Alltaf séu að verki einhverjir
stjónmálaplottarar að handstýra fólki - nota það sem verkfæri
sín.
Þetta er ekki beinlínis lýðræðislegt viðhorf og byggir ekki á
mikilli virðingu fyrir einstaklingnum. Í mínum huga er beinlínis
ósvífið að halda þessu fram gagnvart öllu því fólki sem mótmælti
hrunstjórninni á sínum tíma.
Þar fyrir utan er þetta beinlínis ósatt. Ég þekki fjöldann allan af
fólki - einsog ég held við gerum öll því þarna var þverskurður af
þjóðinni - sem tók þátt í þessum mótmælum af eigin hvötum og að því
er ég best veit, án þess að nokkur innan veggja Alþingis hvetti til
þess.
Auðvitað hefur það gerst í mannkynnsögunni að tilraunir eru gerðar
til múgsefjunar; að reynt er að misnota fólk í þágu pólitískra
hagsmuna. Slíku er stefnt gegn lýðræðinu og frelsi
einstaklingsins.Andstæðingar lýðræðis hafa aldrei átt liðsmann í
mér.
frétt Pressunnar:
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/haestarettarlogmadur-skipulogdu-ogmundur-og-ossur-oeirdirnar-til-ad-komast-i-stjorn