TÍU STAÐREYNDIR UM STÖÐU ICESAVE MÁLSINS Á ALÞINGI

1) Það er staðreynd að
áhöld eru um lagalega greiðsluskyldu Íslands gagnvart breska og
hollenska ríkinu. Breska og hollenska ríkið ásamt stuðningsliði í
Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu meina okkur að leita
réttar okkar eftir reglum réttarríkis eða það sem réttara er:
Breska og hollenska ríkið neita að leita réttar síns gagnvart
íslenskum skattborgurum. Í þessu efni njóta breska og hollenska
ríkið stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og
Evrópusambandsins.
2) Það er staðreynd að óvissa er um verðmæti eigna
Landsbankans og þar af leiðandi hve mikið fellur á íslenska
skattgreiðendur. Þetta kemur ekki í ljós fyrr en á reynir.
3) Það er staðreynd að greiðsla Icesave skuldanna
verður erfið þótt ekki sé nema vegna vaxtakostnaðar. Það má hins
vegar vel vera að þetta verði okkur gerlegt. Þannig sjáum við í
spám Seðlabanka Íslands að við gætum orðið aflögufær um gjaldeyri
því gert er ráð fyrir meiri afgangi í vöruskiptum við útlönd á
komandi áratug en dæmi eru um í lýðveldissögunni. En hvað þýðir
þetta? Þetta þýðir að Íslendingar hætta að hafa efni á innkaupum
erlendis frá í þeim mæli sem verið hefur, ekki bara bílum heldur
hugsanlega einnig sneiðmyndatækjum á sjúkrahúsin, lyfjum og öðrum
nauðþurftum velferðarsamfélagsins. Það er eitt að ráða við
viðfangsefnið, annað á hvaða forsendum það er gert, hverjar
afleiðingarnar eru í lífskjörum þjóðarinnar.
4) Það er staðreynd að í málflutningi sínum horfa
fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrst og fremst á
greiðslumöguleika íslenska efnahagskerfisins en ekki til afleiðinga
fyrir samfélag og auðlindir sem við búum yfir. Allt er þetta rætt
undir rós og með bros á vör. Eða hvað skyldi Flannagan, fulltrúi
AGS, hafa átt við í Kastljósi Sjónvarpsins þegar hann segir
Íslendinga hafa "geysilega aðlögunarmöguleika" til að
borga himinháar skuldir sínar? Selja fiskikvótana, Landsvirkjun,
OR, Gvendarbrunnana, virkja Gullfoss, Goðafoss, Jökulárnar í
Skagafirði, Þjórsá, Landmannalaugar, Geysi? Spurt er í alvöru?
Þetta er það sem Ísland á verðmætast.
5) Það er staðreynd að umræðan um greiðslugetu
Íslands hefur iðulega verið yfirborðskennd. Dæmi má taka úr
fyrrnefndu viðtali Þóru Arnórsdóttur (prýðilegu) í Kastljósþætti
kvöldsins. Þar segir fyrrnefndur Flannagan að
Icesave-skuldbindingin sé ekki okkar stærsti vandi því aðrar
skuldir séu stærri í sniðum. Þetta kann að vera rétt en einmitt
vegna annarra skuldbindinga er Icesave okkur þungbært. Undarlegt að
menn komist upp með að horfa framhjá þessari staðreynd.
6) Það er staðreynd að margir vilja ganga frá
samningum á þeim forsendum sem gert hefur verið vegna þess að þeir
telja að seinna verði skuldir okkar felldar niður eða stórlega
dregið úr þeim. Þetta viðhorf virðist mér ríkjandi hjá mörgum
áköfum áhugamönnum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og ber þess
vott að þeir leggja meira upp úr Evrópusambandsaðild og því sem hún
kann að hafa í för með sér þegar fram líða stundir en hagstæðum
samningi.
7) Það er staðreynd að Alþingi hefur reynst ófært
um að koma sameinað að lausn vandans, bæði vegna þess hvernig að
málinu hefur verið staðið af hálfu stjórnarmeirihlutans og einnig
vegna hins að stjórnarandstöðunni hefur ekki tekist að rísa yfir
sjálfa sig og taka á málinu óháð flokkspólitískum hagsmunum.
Fjölmiðlafólk hefur því miður alltof margt skipst í fylkingar eftir
slíkum landamærum.
8) Það er staðreynd að margir telja að Íslendingar
eigi ekki annarra kosta völ en skrifa undir afarkosti Icesave
samninganna. Til eru þeir sem telja Icesave samninginn
afbragðssamning og neita jafnvel að viðurkenna að í meðförum
Alþingis hafi hann skánað til muna sem hann vissulega hefur
gert að mínu mati. Það hafi sýnt sig að lengra verði ekki
komist.
9) Það er staðreynd að margir telja á hinn bóginn
að Íslendingar verði að taka þann kost að hafna samningnum þrátt
fyrir erfiðleika sem því kunni að fylgja. Betra sé að taka skell
núna en láta lánadrottna okkar komast upp með að hlaða á okkur
ólögmætum og ranglátum byrðum.
10) Það er staðreynd að þingmenn hafa komist -
flestir, ef ekki allir - að niðurstöðu í málinu. Frekari gögn
kynnu vissulega að varpa ljósi á málið. Það breytir þó ekki því að
samningurinn liggur fyrir undirritaður, lagafrumvarp er á borðum
Alþingis í samræmi við þennan undirritaða samning, sem þorri
stjórnarmeirihluta er staðráðinn í að samþykkja og stjórnarandstaða
að hafna.
Ergo: Frekari tafir á Alþingi þjóna engum sýnilegum
tilgangi.