AÐ FALLA Á PRÓFI


Seðlabankastjóri og háskólaprófessor segja í fréttum í kvöld að ekki sé hægt að lækka vexti að neinu marki vegna óvissu um Icesave. Hvers vegna ekki? Vilji þeir vera svo vænir að skýra mál sitt nánar. Ef sannfærandi skýringar koma ekki fram verða þessar fullyrðingar ekki skildar öðru vísi en innlegg í kosningabaráttu um Icesave, tilraunir til að vekja upp efasemdir og ótta. Hræða fólk til að samþykkja þau lög sem nú liggja fyrir í stað þess að nýta nýjar aðstæður til að bæta stöðu okkar. Er það þetta sem óskað er eftir af "óháðum" Seðlabanka og er það þetta sem við búumst við af háskólaprófessorum? Að þeir leggist í skotgrafirnar?
Til hvers eru annars stýrivextir? Til að hafa áhrif á framvinduna, eða hvað? Háir vextir eru til þess fallnir að stuðla að því að fólk hreyfi ekki við sparifé sínu, setji það ekki í fjárfestingu eða framkvæmdir? Er það þetta sem Seðlabankinn telur nú brýnast? Einhvern tíma var okkur sagt að háir vextir væru til að laða fjármagn til landsins. Það tókst. Í of miklum mæli. Illu heilli.  Síðan sagði Seðlabankinn okkur að háir vextir væru til að koma í veg fyrir að sömu peningar streymdu úr landi. En það var fyrir gjaldeyrishöft. Er Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, ekki ljóst að höft eru við lýði á Íslandi? Við búum ekki í hagkerfi óheftra fjármagnsflutninga. Af hveju þá láta einsog svo sé?
Á virkilega að halda áfram að kyrja sama sönginn og sunginn hefur verið í alltof langan tíma á Íslandi um ágæti okurvaxtanna. Már Guðmundsson, fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabankans, þekkir þessi söngstef.

Seðlabanki gegn hinum eignalausu?

Verkefnið á Íslandi í dag á ekki að vera það helst að halda áfram að pína skuldara með háum vöxtum. Það á við um heimili og fyrirtæki. Þau sem berjast í bökkum; eru við það að segja upp fólki, jafnvel fara í þrot. Þau skulu áfram pínd "vegna óvissu"! Eru menn orðnir galnir? Er ekki forgangsverkefnið að verja skuldug heimili, hjálpa fyrirtækjum að lifa af?
Í mínum huga er þetta morgunljóst.  Nú á sparifjáreigandinn ekki að vera  í forgangi. Hann hefur verið í forgangi á kostnað hins eignalausa hættulega lengi. Þetta gengur ekki lengur. Það verður að velja á milli: þess sem á og hins sem ekki á.
Nú er komin upp ný staða í Icesave. Hún er okkur hagstæðari í útlöndum en áður. Enginn vafi leikur á því. Vinstriflokkarnir á Norðurlöndum álykta okkur í hag. Á meginlandi Evrópu fjölgar þeim sem taka upp hanskann fyrir okkur. Íslenskir þingmenn á þingi Evrópuráðsins segja að vaxandi skilningur sé á málstað Íslands. Þetta gerist samhliða því að hann verður fleirum kunnur. Það gerist þegar umræðan hættir að fara fram einvörðungu í símtölum ráðamanna og á fámennum fundum.
Í síðustu viku héldu norrænir þingmenn á Evrópuþinginu fund og fengu Evu Joly til að fræða þá um Icesave. Voru margir að heyra um málstað Íslands í fyrsta sinn.

Leitum að því sem styrkir okkur

Þessa breyttu stöðu ber okkur öllum skylda til að nýta, málstað Íslands til framdráttar. Ekki tala okkur niður. Ekki leita að því sem er til þess fallið að veikja stöðu Íslands. Heldur hinu sem er til að styrkja stöðu landsins. Lágmarkskrafa er að Seðlabankinn haldi sig til hlés ef hann ekki telur sig vera þess umkominn að horfa hlutlægt á málin. Sama á við um akademíuna. Venjulega eru það nemendur sem falla á prófum. Á undanförnum mánuðum höfum við hins vegar séð prófessorana falla. Hvern á fætur öðrum.

Fréttabréf