AÐEINS MINNI ÚRTÖLUR!

Birtist í Fréttablaðinu 25.01.10.
FrettablaðiðNiðurskurðurinn í ríkisútgjöldum er farinn að segja til sín. Ýmsir staðhæfa að við séum að fara í hundana. Að Ísland muni einangrast ef við förum ekki í einu og öllu að vilja Breta og Hollendinga. En vanmetum ekki stöðu okkar. Kapítalisminn er ágengari en margir halda; túristinn frá München ætlar til Íslands í sumar hvað sem tautar og raular; Ikea ætlar að selja Jóni og Gunnu á Íslandi stól og borð -fiskkaupmaðurinn í Grimsby ætlar að koma íslenskum fisk á veitingahúsaborð í London. Hann ætlar ekki að einangra Ísland.
Vanmetum ekki heldur pólitíkina. Hún er okkur ekki að öllu leyti mótdræg. Gordon Brown þarf að sýna kjósendum sínum í tíma fyrir vorkosninguna í Bretlandi að hann  kunni að laða fram lausnir. Hollenska ríkisstjórnin þarf nú að hlusta á kjósendur spyrja hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eigi við með því að segja að Ísland geti virkjað sig út úr vandanum. Er verið að tala um Gullfoss? Eða Geysi? Landmannalaugar? Er þetta kannski ekki milliríkjadeila? Er þetta barátta á milli málmbræðslunnar annars vegar og fossanna og hverasvæðanna hins vegar? Eða á milli á milli fólks og fjármagns, einsog skilja má á Alain Liebitz, evrópska þingmanninum sem tók þátt í smíði tilskipunar um tryggingasjóði innistæðueigenda? Hann segir að við séum að misskilja sitthvað í þeirri smíði. Bretar og Hollendingar misskilji hins vegar ekki neitt. Þeir séu einfaldlega að nýta sér vald sitt. Þeir kunni á gikkinn frá gamalli tíð. Allt þetta er tal sem Evrópa skilur.
Ísland mun rísa, mörg teikn eru á lofti um efnahagsbata. Margt gengur okkur í haginn. Ef þverpólitísk samstaða myndast um Icesave vænkast enn okkar hagur! Þá skapast forsendur til að ná betri niðurstöðu fyrir Ísland. Það væru góð tíðindi. Það er ekki nóg að fresta skuldadögum, það munar um hverja krónu sem við náum lántökum okkar niður. Nú er að tala kjarkinn upp. Og má biðja um aðeins minni úrtölur! Það myndi hjálpa.

Fréttabréf