EKKI SÚ RÉTTVÍSI SEM BEÐIÐ ER EFTIR


Ekki reyni ég að afsaka ofbeldi og líkamsmeiðingar. Ekki gagnvart lögreglumönnum. Ekki gagnvart þingvörðum. Né neinum öðrum. Um ofbeldi gagnvart einmitt lögreglu og þingvörðum eru nokkrir einstaklingar nú bornir sökum og krafist þungra dóma. Þegar skrifstofustjórn Alþingis tók ákvörðun um kærur með kröfum um refsingar og  fangelsisdóma síðastliðið haust mótmælti ég. Taldi þetta ósanngjarnt, óráðlegt, nánast heimskulegt. Við yrðum að horfa á aðstæður. Spyrja, hvers vegna allur þessi hugaræsingur og ofsi? Svörin blöstu við. Á þessum tíma var það að renna upp fyrir fólki að Ísland hafði verið svikið. Og blóðið ólgaði. Fólk greip til aðgerða sem það að jafnaði gerir ekki - og eru óafsakanlegar undir öllum venjulegum kringumstæðum.

Svo leið tíminn. Flestir héldu að málið væri dautt. Slasað fólk hefði fengið bætur. Helst ríflegar. En viti menn. Nú reis "Réttvísin" úr rekkju. Steig framúr. En ekki sú réttvísi sem beðið var eftir.
Í þjóðfélaginu er nefnilega spurt: Hvar eru sakargiftir á hendur þeim sem settu Ísland á hausinn; fjölskyldur út á gaddinn; fyrirtæki í gjaldþrot? Í þjóðfélaginu bíður enginn eftir fangelsisdómum yfir ungu fólki sem mótmælti ranglætinu. Jafnvel þótt það hafi gripið til aðgerða sem ég reyni ekki að afsaka. Og sennilega unga fólkið sjálft ekki heldur - ekki lengur - vonandi.

Fréttabréf