Fara í efni

JÓHANN HAUKSSON OG FAÐMUR SIÐMENNINGARINNAR


Í Silfri Egils í dag var vikið að lýðræðinu. Jóhann Hauksson blaðamaður virðist ekki - fremur en ýmsir aðrir - gefa mikið fyrir lýðræðið. Þeim mun meira fyrir forræðið. Þannig sagði Jóhann að forseti Íslands virtist hugsa meira um stemninguna í þjóðfélaginu en almannahag.  
Þótt fjórðungur atkvæðisbærra manna óski eftir atkvæðagreiðslu á forsetinn samkvæmt forskrift Jóhanns að hafa vit fyrir fólkinu - eða öllu heldur leyfa ríkisstjórinnni að hafa vit fyrir fólkinu.
Ég hélt að svona viðhorf væru bara til í sögubókum! Jóhann studdi mál sitt nýlegri speki frá Guðmundi Ólafssyni, hagfræðingi. Þeir félagar segja að Icesave lausnin rúmist í tveimur setningum: 1) Íslendingar borga. 2) Ef Íslendingar geta ekki borgað, þá borga þeir ekki.
Hvað þá? Jú, þá hvílum við, samkvæmt Jóhanni, í faðmi siðmenningarþjóðanna. Einhvern veginn þannig var þetta orðað. Þeim Guðmnundi og Jóhanni virðist ekki umhugað um að Icesave-deilan sé leyst á grundvelli réttarríkis og sanngirni. Þetta er í ætt við málflutning þeirra sem segja að öllu skipti að klára málið - svo reddum við þessu seinna. Það verði örugglega eitthvað gert fyrir okkur í Brussel seinna.
Þetta er ekki bara kúlulánahugsun frá 2007, heldur er þetta líka óábyrg afstaða og sýnir auk þess, að mínu mati, mikinn skort á sjálfsvirðingu. Þá held ég því miður að þetta sé ekkert sérstaklega raunsætt mat. Eða hvað er að gerast í fjárvana Grikklandi? Eða Eystrasaltsríkjunum þar sem sænskt fjármálaveldi hefur undirtökin án þess að Evrópusambandið, með allan sinn stóra siðmenningarfaðm, komi til aðstoðar hinum "hrundu" þjóðum? Sá faðmur virðist opnari fjármagni en fólki.