„ÞAÐ VERÐUR EKKI FYRR EN UM ÞRJÚ LEYTIÐ..."


Ekkert jafnast á við Ísland í góðu skapi. Þannig finnst mér landið vera þegar veður er fallegt, stilla og heiðríkja. Þannig er það búið að vera um helgina á þeim slóðum þar sem við Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, fórum um , en það var sem leið liggur um  landið vestanvert  og norður í Skagafjörð þar sem ég var gestur á félagsfundi Vinstri  grænna. Fundurinn var blanda af alvöru stjórnmálanna og ánægju að vera samvistum við félaga og vini. Ekki var verra að fundarfólkinu var boðið að hlýða á undurfagra tónlist. Helga Rós Indriðadóttir söng nokkur lög við undirleik Stefáns Gíslasonar (sjálfs stjórnanda karlakórsins Heimis). http://www.salurinn.is/default.asp?page_id=7722 
Ekki spillti að tónlistin var flutt á annarri hæðinni í félagsheimilinu Miðgarði í Varmahlíð, í nýuppgerðu glerhýsi, sem tileinkað er stórsöngvaranum skagfirska, Stefáni Íslandi, en þaðan blasir við Skagafjörðurinn, Héraðsvötnin og sveitirnar og tignarleg fjöllin upp af þeim.
Klukkan átta, að loknum tæplega fjögurra klukkutíma fundi, hélt ég að við félagarnir myndum halda rakleitt heimleiðis. Svo var ekki því landbúnaðar- og sjávarútvegsráherra fýsti að fara á Þorrrablót á Hofsósi, sem við og gerðum. Því sá ég ekki eftir. Þorragestir komu með eigin mat og fengum við hann vel útilátinn úr ríkulegu trogi  Hörpu Kristinsdóttur, oddvita VG á Hofsósi. Um fjögur hundruð og fimmtíu manns sóttu blótið. Þar var sungið einsog Skagfirðingum einum er lagið auk þess sem við nutum heimatilbúinna skemmtiatriða, bráðgóðra, frumsamið efni, bundið og óbundið. Eitt er víst. Meningarvísitalan er ekki á niðurleið við Skagafjörð.
Um miðnættið risum við Jón Bjarnason úr sætum okkar til að hefja heimferðina. Ég hafði orð á því við nærstaddan eftir hálftíma eða svo að ráðherrann þyrfti að kveðja marga. Viðkomandi svaraði að bragði og virtist styðjast við reynslu: "Það verður ekki fyrr en um þrjúleytið að Jón Bjarnason gengur út úr þessu húsi!"

Fréttabréf