Fara í efni

BÚLGARSKI SÍMINN OG ÚTLENDIR SJÚKLINGAR


Í dag fór fram umræða á Alþingi um fyrirhugaðan einkaspítala í Keflavík  og þá einnig hvernig til standi að fjármagna hann. Við því vildi ég fá svör. En árangurinn var lítill. Svörin óljós. 
Sjálfstæðismenn, sem þátt tóku í umræðunni og stöku þingmaður úr öðrum flokkum, sögðu þó að það væru ekki bara íslenskir skattgreiðendur sem kæmu til með að borga fyrir reksturinn - kannski alls ekkert þeir - kannski bara skattgreiðendur í öðrum löndum!„...og hvað með það?," spurði Ragnheiður E. Árnadóttir,..."erlendir skattgreiðendur munu borga þetta í gegnum sínar tryggingar, sínar sjúkratryggingar...og hvað með það?!!!" 
Í tilefni þessara orða og annarra áþekkra langar mig til að varpa fram þeirri spurningu til umhugsunar  hvort við berum ekki ábyrgð gagnvart almenningi í öðrum löndum en okkar?
Miklar umræður fara nú fram um það innan Evrópusambandsins hvaða afleiðingar milliríkjaverslun með heilbrigðisþjónustu hafi fyrir almannaþjónustuna. Margir óttast að þetta komi til með að grafa undan henni. Áköfum bisnissmönnum virðist það hins vegar koma lítið við.  
Ég lít svo á að hér beri Íslendingum að sýna ábyrgð.  Hluti af útrásar-hugarfarinu  var að í góðu lagi væri að græða á útlendingum -alveg sama hvaða afleiðingar það hefði í viðkomandi samfélögum! Alltaf og undir öllum kringumstæðum þótti gott ef menn fundu ráð til að maka krókinn í útlandinu.  
Því var til dæmis fagnað ákaft þegar  íslenskir „fjárfestar"  gleyptu landssímann í Búlgaríu í samstarfi við bandaríska kollega. Miklum bolabrögðum var beitt! Blöndu af pólitískum og efnahagslegum þvingunum.
Í fullri hógværð langar mig til að minna á að ég tók ekki þátt í þessu klappi og fagnaðarlátum fremur en ég get fagnað því þegar grafið er undan almannarekinni heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum - og það sagt vera í lagi að markaðsvæða heilbrigðisþjónustu ef útlendingar borguðu brúsann.
Þessum Búlgaríuþönkum  til staðfestingar fylgja einhverjar slóðir (af mörgum) um framangreint efni: 

https://www.ogmundur.is/is/greinar/bjorgolfur-og-bandarikin-lysa-ahyggjum
https://www.ogmundur.is/is/greinar/islensku-hugviti-beitt-i-bulgariuhttps://www.ogmundur.is/is/greinar/mikilvaeg-vidskipti-fyrir-bulgorsku-thjodina

Umræðan á Alþingi í dag:  http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100224T140343&horfa=1