EKKI HEFND - BARA RÉTTLÆTI


Í gær, 11. febrúar, voru tuttugu ár liðin frá því Nelson Mandela, frelsishetja svartra í Suður-Afríku , var leystur úr haldi eftir tuttugu og fjögurra ára fangelsisvist. Tuttugu og fjögur ár í fangelsi!
Þrátt fyrir þetta orkaði Nelson Mandela ásamt félögum sínum, með Desmond Tutu  biskup í farabroddi, að sigrast á sjálfum sér.
Ekki var nóg með að þeir fengju kveðið kynþáttastefnuna niður. Þeir unnu það afrek, eftir að hafa sætt ofbeldi og ofsóknum í áratugi, að rísa yfir sjálfa sig og koma fram við andstæðinga sína eins og þeir höfðu krafist að fram væri komið við þá sjálfa.
"I have fought against the domination of whites over blacks...Ég hef barist gegn kúgun hvítra á svörtum!!!." sagði Mandela á fjöldafundi eftir að hann var leystur úr haldi. Og fjöldinn klappaði. Síðan hélt hann áfram "..and I fight against the domination of blacks over whites...og nú berst ég gegn kúgun svartra á hvítum..." Og fólkið klappaði.
Eftir að Mandela og félagar tóku við stjórnartaumunum var Sannleiksdómstóll   settur á laggirnar. Krafan var um sannleikann  - og allan sannleikann  - upp á borðið. Þegar það hafði verið gert var verkefnið að fyrirgefa og sættast.
Eitthvað í þessu kann að eiga erindi við okkur Íslendinga.  Mér  varð hugsað til þessa þegar ég sá forsíðu DV í dag. Þar voru myndir af nokkrum stjórnmálamönnum og embættismönnum. Fyrirsögnin var "Grunuð." 
Nú hef ég ekki séð grunsemdirnar útlistaðar. En ég vara við því að búa til glæpamenn úr velviljuðu og heiðarlegu fólki sem kann að hafa unnið sér það til saka að hafa sýnt fyrirhyggjuleysi, andvaraleysi  - augljóst nú eftirá en ekki endilega þá. Yfirsjónarbrot eru ekki sama og ásetningsglæpir. Það truflar mig að svo virðist sem einkavæðing bankanna og samkrullið við stjórnmálin hafi ekki verið tekin til rannsóknar á sama tíma og umræddir einstaklingar eru leiddir fram fyrir alþjóð. Förum varlega í fordæmingum!
RÚV vil ég þakka þáttinn um Mandela í dag. Þar hjó ég eftir tilvitnunum hér að framan.

Sjálfur hef ég oft fjallað um Sannleiksdómstól Tutus, til dæmis hinn 1, maí árið 2005 í Grafarvogskirkju. Þar sagði ég meðal annars:
"Í guðspjallinu hér að framan er vitnað í hina grimmdarlegu setningu: auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Kristnir menn tala um lögmálið og fagnaðarerindið. Lögmálið er Gamla testamentið og fagnaðarerindið er Nýja testamentið. Lögmálið segir: Við erum af jörðinni komin og við verðum að hlíta lögmálum jarðarinnar. Við verðum að beita hvort annað hörðu til að halda reglu í þjóðfélagi. Lögmálið er um reglur, um refsingar, um baráttu, um hörku: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Það er réttlætisyfirlýsing lögmálsins. Handhafi valdsins hefur rétt fyrir sér. Valdið hefur rétt fyrir sér. Hefndin er réttlæti og hefndin er réttlát. En hvað er þá fagnaðarerindið? Fagnaðarerindið er það að maðurinn geti verið meira en skepna kúguð af hlutskipti sínu. Fagnaðarerindið segir að maðurinn geti lyft sér upp fyrir hlutskipti sitt, að hann geti sigrast á kringumstæðum sínum. Að baráttan sé um að láta ekki lögmálið kúga sig að eilífu, en freista þess að ná valdi á skepnunni, á sjálfum sér, á samfélaginu og á heiminum. Og vopnið í þeirri baráttu? Það er kærleikurinn. Vopnið er fyrirgefningin. Vopnið er traust á kærleikanum. Kristnir menn segja að Jesú, hafi verið sendur á vettvang til að færa okkur þessar fréttir. Menn hafa fengið þessi skilaboð með ólíkum hætti, á ólíkum tímum. Á okkar tímum sjáum við annan slíkan sendiboða í suður-afríska biskupnum Desmond Tutu. Þjóð hans var kúguð og bræður hans og systur þjáð og smáð, pyntuð og rænd og fangelsuð af valdhöfum og handbendum þeirra. Þegar svo kúgararnir gáfust upp, þá setti Tutu á laggirnar dómstól sem hét sættir og sannleikur. Allir sem höfðu orðið fyrir ofsóknum gátu kært kúgara sína og dómstóll sátta og sannleika réttaði í málinu. Þegar sannleikurinn hafði komið í ljós, þá fór fram fyrirgefning og sættir.
Þetta er í raun bylting í mannkynssögunni.
Þetta er að bjóða hinn vangann, þetta er að treysta á kærleikann...."
Sjá nánar: http://ogmundur.is/umheimur/nr/2171/

Fréttabréf