Fara í efni

HETJUR


Sjaldan finnur maður fyrir eins notalegri tilfinningu og við að verða vitni að björgunarsveitum að störfum. Það gerum við alltaf annað veifið í gegnum fjölmiðla þegar sveitirnar eru kallaðar út einsog gerðist í gær þegar á þriðja hundrað björgunarsveitamanna héldu til leitar á Langjökli að konu og dreng sem þar höfðu týnst. Leitin bar árangur. Því fylgdi mikil gleðitilfinning. Enda unnin hetjudáð. Móður og syni bjargað úr lífsháska.
Hvað er svona notalegt  við tilhugsunina um björgunarsveitirnar? Auðvitað vekur dugnaður og kraftur björgunarsveitarmanna aðdáun. En það sem yljar hjartanu er hið óeigingjarna starf sem þessir menn vinna.  Þrotlausar æfingar og síðan stöðugt og ævinlega í viðbragðsstöðu.
Allt fyrir okkur. Og alltaf fyrir okkur. Bestu þakkir!