NÍÐSKRIF Í NOREGI


Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, hefur ritað grein í norska stórblaðið Aftenposten. Þessi grein er með þvílíkum ólíkindum að manni verður orða vant. Ekki er nóg með að hann tali málstað Íslands í Icesave deilunni niður. Hann jafnar  okkur sem erum á öndverðum meiði við hann sjálfan við bandaríska fjárglæfraloddarann Madoff, sem dæmdur var til fangelsisvistar í 150 ár fyrir fjármálasvindl!
Ef Norðmenn vilja aðstoða Íslendinga, segir Þórólfur, þá reyni þeir að gera það sem íslenskum stjórnvöldum tókst ekki: Að sannfæra íslensku þjóðina um að samþykkja Icesave samninginn undanbragðalaust. "Et nei vil koste Island dyrt", er fyrirsögn greinar Þórólfs, "Nei yrði Íslandi dýrt".
En hvers vegna yrði það Íslendingum dýrt, má ég spyrja? Svarið liggur í augum uppi. Vegna þess að þá yrðu Íslendingar væntanlega beittir þvingunaraðgerðum af hálfu Breta og Hollendinga og fylgisfiska þeirra!
 Er ekki rétt fyrir Íslending sem hefur fyrir því að skrifa grein í erlent blað að spyrja um réttmæti slíkra refsiaðgerða og í framhaldinu, ef þær reynast óréttmætar, fara þess á leit að látið verði af slíkum þvingunum? Nei, það er ekki á dagskrá hjá Þórólfi Matthíassyni. Grímulaust og gagnrýnislaust tekur hann upp málstað Breta og Hollendinga og grefur um leið undan okkar málstað og ber okkur sum hver út að auki!
Um  útreikninga og framsetningu Þórólfs má  fara mörgum orðum. Hann slær fram tölum og upphæðum sem byggðar eru á líkindareikningi og reiknar prófessorinn í einu og öllu málstað Íalendinga niður!
Ég sá þessa grein eigin augum fyrst nú undir miðnættið. Áður hafði blaðamaður Morgunblaðsins haft samband við mig og lesið glefsur úr henni. Var ég hófsamur í viðbrögðum, mun hófstilltari en ég hefði verið ef ég hefði verið búinn að sjá þessa makalausu ritsmíð. Eða hvað finnst ykkur lesendur góðir um þessi níðskrif um okkur sem gagnrýnum Icesave samninginn og hvetjum til betri lausnar á þessari óheilladeilu?
http://www.aftenposten.no/meninger/article3497865.ece

Fréttabréf