ORÐ ERU DÝR


Nýlega gagnrýndi ég Þórólf Matthíasson,  prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fyrir að fara með það sem ég taldi staðlausa stafi - meira en það, beinlínis  að tala málstað Íslands niður - í greinarskrifum í Noregi í sama mund og biðlað var til Norðmanna af Íslands hálfu að rjúfa umsátursmúrinn um Ísland og opna lánalínur án skilyrða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.
Þórólfur gekk reyndar miklu lengra í blaðagrein í norsku stórblaði, því hann veittist að okkur sem gagnrýnt höfum Icesave samninginn og líkti okkur við alræmdan bandarískan fjársvikahrapp sem hlaut 150 ára fangelsisdóm fyrir svik sín og pretti. Málflutningur okkar var settur í kategoríu loddarans Maddofs! Þetta var ekki saklaust.
Ég hef fært rök fyrir því hvers vegna ég tel að Þórólfur hafi farið með staðlausa stafi í málafylgju sinni til stuðnings núverandi Icesave samningi.  Þórólfur svarar mér í Fréttablaðinu í vikunni á þá lund að ég kunni ekki að framreikna og staðfæra. Hér hafa lesendur röksemdir okkar beggja: http://ogmundur.is/annad/nr/5057/  
http://ogmundur.is/annad/nr/5080/
http://ogmundur.is/stjornmal/nr/5069/

Dómsdagsspár engin nýlunda

Lesandi þessarar heimasíðu,  Jóna Guðrún, vekur athygli á því að Þórólfur hafi áður verið með dómsdagspár vegna Icesave en sem kunnugt er var því haldið að okkur að allt færi í hundana ef ekki tækist að klára Icesave fyrir kaffi á morgun. Eða í næstu viku, í síðasta lagi, þá væru allra síðustu forvöð. Dómsdagsspárnar reyndust ekki réttar. Í ljós hefur komið að tíminn hefur unnið með okkur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem haldið hefur að okkur kröfum um himinháan gjaldeyrisforða - sem kostaði hátt í 20 milljarða á ári í vexti !- er kominn nær jörðinni.

Tvíeggjaðar lántökur

Auðvitað þurfa lánalínur að opnast. En jafnvel þegar þær opnast leysist ekki vandi okkar sjálfkrafa. Að mínu mati er alvarlegasta hættan sem við stöndum frammi fyrir sú, að við hlöðum of miklum byrðum á ríkissjóð framtíðarinnar; að við vörpum öndinni léttar með erlendum lántökum inn í framtíðina.
Þórólfur Matthíasson hefur látið hafa eftir sér að hann sé sakaðaur um að vera "óþjóðhollur". Það voru ekki mín orð. Ég kallaði það hins vegar níð að vera líkt við bandaríska glæpamanninn Maddof, sem áður segir, og gagnrýndi ég það að málstaður Íslendinga í Icesave deilunni væri talaður niður.

Ábyrgð fylgir orðum

Auðvitað er hverjum og einum frjálst að segja nákvæmlega það sem honum býr í brjósti. Þannig á það að vera. Það breytir því ekki að hvert og eitt okkar má gjarnan hafa ákveðnar siðareglur í huga. Ef við  færum málflutning Þórólfs og annarra sem tala því máli erlendis að Íslendingar standi á þunnum ís - sem hvað sem öðru líður hlýtur að teljast vera álitamál - upp á hugsun enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills, einhvers öflugasta málsvara einstaklingsfrelsisins fyrr og síðar, hefði þetta ekki þótt boðleg framganga. Mill segir nefnilega að hver maður eigi að vera frjáls til orða og athafna svo fremi hann skaði ekki aðra. Þetta er svo mergurinn málsins hvað Icesave snertir: Icesave snýst um fjárhags-hagsmuni okkar allra - hvers og eins okkar.  Þetta eru peningar sem ætlast er til að við greiðum úr okkar vasa, úr okkar sameiginlegu buddu.  Við slíkar aðstæður leyfum við okkur að gagnrýna það þegar hagsmunir okkar eru talaðir niður.

Mestar kröfur til hagspekinga og stjórnsýslu

Jóna Guðrún, sem hér var vitnað til, segir að ábyrgð akademíunnar sé mikil: "Raunar ættum við að gera meiri kröfur til fulltrúa háskólasamfélagsins, krefjast aukinnar gagnrýni af hálfu prófessora og vísindamanna. Við eigum ekki að leyfa okkur að láta kyrrt liggja þegar prófessorar fara með fleipur í útlöndum." (http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/5083/)
Þetta er hárrétt. Að þessu þurfum við öll að hyggja. Þetta er ekki rétti tíminn til að hefja hatrammar deilur um það hvort íslensk stjórnvöld hafi verið búin að skuldbinda okkur óafturkræft haustið 2008. Sjálfur tel ég  af og frá að svo hafi verið. Þetta  þarf að sjálfsögðu að leiða í ljós af sagnfræðilegri nákvæmni. Best er að gera það áður en fréttayfirlýsingar eru gefnar út í Bretlandi og Hollandi í aðdraganda nýrrar samningalotu. Alla vega eru slíkar yfirlýsingar óheppilegt upplegg fyrir þá samninganefnd  sem nú freistar þess  að bæta stöðu Íslands.

Fréttabréf