ÞJÓÐHÁTÍÐIN, HEFÐIN, ÖRYGGIÐ OG LÝÐRÆÐIÐ


Ég óska lesendum síðunnar gleðilegs þjóðhátíðardags. Daginn notaði ég til jarðræktarstarfa austur í Grímsnesi en að því loknu var brunað til Reykjavíkur og þáðar kaffiveitingar hjá Helgu Stephensen frænku minni  á Laufásveginum í hjarta borgarinnar. Þar hef ég þegið þjóðhátíðarveitingar  svo lengi sem ég man eftir mér, nú hjá Helgu áður hjá foreldrum hennar Dórótheu Breiðfjörð og Þorsteini Ö. Stephensen móðurbróður mínum. Þarna hitti ég alltaf margt gott frændfólk og vini. Geng að því sem vísu eftir áratuga hefð.
Margrét Pétursdóttir, félagi minn í pólitíkinni og varaþingkona,  flutti ágæta ræðu á eldhúsdegi þingsins í byrjun vikunnar. Hún sagði að það hefði ekki verið pólitík sem hefði leitt til hrunsins heldur vond pólitík. Út af þessu lagði hún síðan um gildi stjórnmálstarfs -  gildi góðra og uppbyggilegra stjórnmála. Það er eins með hefðirnar og stjórnmálin. Þær eru góðar og slæmar. Góðar hefðir eru eftirsóknarverðar. Þjóðhátíðardagurinn er dagur góðra íslenskra hefða. Það besta í íslenskri þjóðarhefð snýr að opnu og lýðræðislegu þjóðfélagi. Á Laufásveginum í dag varð mörgum tíðrætt um aukinn lögregluvörð á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn og lokun Dómkirkjunnar fyrir almenningi. Allt af öryggisástæðum.
Viljum við þetta? Vissulega viljum við lög og reglu og öryggi fyrir samfélagið. En látum ekki öryggið þrengja að lýðræðinu.

Fréttabréf