Fara í efni

ESB OG BLÓÐÞRÝSTINGURINN


Í morgun birti ég grein í Morgunblaðinu um ESB þar sem ég m.a. legg út af grein eftir forseta framkvæmdastjórnar ESB, Hermans Van Rompuy, sem birtist í sama blaði í byrjun maí-mánaðar. Grein talsmanns ESB vakti minni athygli þegar hún birtist en efni voru til að mínu mati, en hefur nú öðlast líf að nýju.

Fjör á netinu

Umfjöllun mín hefur greinilega haft talsverð áhrif á blóðþrýsting hjá hópi manna. Á netinu er margt látið flakka og mesta ákafafólkið lætur það ekki trufla sig þótt það hafi lesið hvoruga greinina, hvorki þá sem Van Rompuy ritaði eða mína. Það er eins og gengur. Hins vegar er margt ágætlega sagt í netskrifunum.
Morgunblaðsgrein mína birti ég á morgun hér á síðunni samkvæmt þeirri venju að birta blaðgreinar mínar daginn eftir útkomu viðkomandi blaðs. Held ég mig við þá venju.
Það sem vekur athygli mína er hve viðkvæmir sumir skríbentar, sem harðast gagnrýna mig, eru fyrir tvennu.
Í fyrsta lagi að ég skuli vísa til nýlendutónsins í boðskap forseta framkvæmdastjórnar ESB og hvernig hann reynir að höfða til Íslendinga með því að „selja" okkur stórveldið ESB. Þessu svara ég á þá lund ég telji okkar hagsmunum betur borgið sem sjálfstæðu ríki utan ESB með forræði yfir auðlindum sínum og samfélagi.

Lífsrými

Hitt sem hreyfir við fólki er tilvísan í hugtakið „lífsrými". Þykir það minna óþægilega á tilkall nasista til aukins lífsrýmis „Lebensraum"  á fjórða áratug síðustu aldar; að ég sé að líkja ESB við Þríðja ríkið.
Svo er ekki.
Það sem ég á við með tilvísun í þetta hugtak er að minna á þá staðreynd að átökin í heiminum stjórnast að verulegu leyti af hagsmunum fjármagnsins sem stöðugt krefst aukins  „rýmis" til athafna, eða hvað halda menn að Íraksstríðið hafi snúist um? Mannréttindi? Auðvitað snerist það fyrst og fremst um auðlindir, í því tilviki olíu.
Van Rompuy sér framtíðina fyrir sér sem baráttu stórvelda. Hann segir : „Leyfið mér að minna ykkur á hvað við erum að verja. Evrópubúar njóta forréttinda í heiminum...Við erum mesta viðskiptaveldi heims. Þetta er árangur, sem vert er að vera stoltur af.. Í breytilegum heimi eru hins vegar önnur svæði tilbúin til að gera betur en við efnahagslega. Störf okkar og áhrif eru í húfi."  
Ég legg til að menn spyrji þriðja heims ríki hvaða augum þau líti ESB þegar tekist er á um viðskiptahagsmuni og  aðgang að auðlindum. Og ég hvet til raunsæis þegar auðlindir Íslands eru annars vegar og spyr „hvort sé vænlegra fyrir okkur - sem erum þrjú hundruð þúsund talsins - að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem neytendur á evrópskum stórmarkaði með takmörkuð lýðræðisleg áhrif, eða efla okkur sem fullvalda ríki sem á í samskiptum við önnur ríki með beinni aðkomu að samningum um öll okkar mikilvægustu mál - þar á meðal ráðstöfun sjávarauðlindarinnar, okkar dýrmætasta fjársjóðs...Hverju barni er það nú augljóst að Evrópusambandið sækir það fast að fá okkur inn enda augljósir hagsmunir í breyttri heimsmynd. Þá breyttu heimsmynd sjá Kínverjar líka greinilega fyrir sér og er það engin tilviljun hve fyrirferðarmiklir þeir eru að verða hér á landi. Það sem við þurfum á að halda er að horfa ískalt á það hvernig hagsmunum okkar verður best borgið í gerbreyttum heimi...."

Friðrik og hundurinn hans

Einn af þeim sem sendir mér tóninn í dag er fulltrúi Íslands í starfi hjá SÞ í Kabúl, Friðrik Jónsson. Hann segir okkur á vefsíðu sinni að hann hafi komið frá útlöndum í gær. Farið út að ganga með hundinn sinn og almennt verið í góðu skapi þar til hann hafi rekist á grein mína í Morgunblaðinu í morgun. Friðrik trúir okkur fyrir því að þá hafi hann komist  í slæmt skap og skrifað pistil sem síðan verður tilefni til þess að Pressan birtir myndir af Adolf Hitler enda í samræmi við staðhæfingar Friðriks þessa um innræti mitt og „rætnisfulla rægitungu" mína. Ég vona að Friðrik nái jafnvægi að nýju og óska honum góðrar og ánægjulegrar kvöldgöngu með hundinn sinn.

Dæmi um umjöllun í dag:

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/ertu-svona-ljotur-ad-innan-ogmundur-ertu-ad-gefa-i-skyn-ad-esb-fremji-a-okkur-thjodarmord

http://silfuregils.eyjan.is/2010/08/06/glerperlur-og-eldvatn-i-bodi-fyrir-lifsrymi/

http://eyjan.is/2010/08/06/ogmundur-jonasson-faum-styrki-fra-esb-medan-verid-er-ad-tala-okkur-til/

http://blog.eyjan.is/grimuratlason/2010/08/06/lebensraum/

http://www.amx.is/tenglar/99081/

http://www.amx.is/tenglar/99100/

http://silfuregils.eyjan.is/2010/08/06/reductio-ad-hitlerum/

http://www.amx.is/fuglahvisl/15419/