Fara í efni

MAGMA, RÍKIÐ OG BORGIN: TRÚVERÐUGLEIKI Í HÚFI


Margir hafa - réttilega - dásamað Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem meðal annars var fjallað um innbyrðis tengsl í viðskipta- og fjármálalífi svo og tengsl stjórnmálanna við efnahagslífið. Verkið var hafið en ekki lokið. Framhaldsvinna fer nú fram á vegum Alþingis og síðan verður það þjóðfélagsins alls að halda vöku sinni og tryggja að hér þróist opið lýðræðisþjóðfélag.

Þorleifur Gunnlaugsson, þáverandi borgarfulltrúi og núverandi varaborgarfulltrúi VG, vildi samsvarandi rannsókn hjá Reykjavíkurborg. Vel var tekið í hugmyndir hans um rannsóknarnefnd. Það var fyrir kosningar. Fyrir nokkrum dögum kom fram að fæðing nefndarinnar gengi erfiðlega. Í kjölfarið gerðust ýmsar spurningar áleitnar. Getur verið að stjórnmálamenn ætli að koma í veg fyrir rannsókn á stjórnmálamönnum?

Á sama tíma berast okkur vægast sagt undarlegar fréttir af áður boðaðri rannsóknarnefnd á Magma málinu. Hún var skipuð ágætu fólki úr ýmsum áttum með mismunandi sérþekkingu. Formaðurinn, Hjördís Hákonardóttir, nýtur óskoraðs trausts til að leiða starfið. Samkvæmt síðustu fréttum er hins vegar spurning um hversu auðvelt henni verður gert að starfa. Eða öllu heldur, erfitt.
Forsætisráðherra hefur nefnilega afturkallað tilnefningu á nefndarmanni sem getið hefur sér orð fyrir rannsóknir á tengslum fjármálanna og stjórnmálanna, Sveini Margeirssyni. Nú er okkur sagt að frændi Sveins sé giftur formanni nefndar um erlendar fjárfestingar og að hann hafi einhvern tímann í einkasamtali sagst hafa efasemdir um að skúffufyrirtæki Ross Beaty væri gjaldgengur lögaðili á hinu Evrópska efnahagssvæði! Sama skoðun og prófessarar við Háskóla Íslands hafa lýst. Nú skilst mér að Sveinn kannist ekki við þetta meinta samtal. Sjálfum finnst mér það fullkomið aukaatriði hvort það átti sér stað þótt verra sé að sjálfsögðu ef ósannindi eru höfð í frammi.
En í nefndarstarfinu verður ekki spurt um skoðanir heldur röksemdir fyrir skoðunum. Ég treysti formanni nefndarinnar að starfa á slíkum grundvelli. Það heitir að starfa faglega.
Fagþekking Sveins Margeirssonar lýtur að könnun á fjármálatengslum og rekjanleika. Það yrði missir af honum  fari hann út úr nefndinni vegna þeirrar þekkingar og færni sem hann býr yfir.

 Ekki er þó síður alvarlegt fyrir trúverðugleika stjórnvalda ef fólk fær þá slæmu tilfinningu að einstaklingar séu látnir gjalda skoðana sinna  - skoðana sinna á fjármála- og hagsmunatengslum stjórnmálamanna.  Heyrst hefur að Sveini sé legið á hálsi fyrir að hafa verið fylginn sér í athugunum sínum og jafnvel sést mótmæla  tengslum stjórnmálanna og fjármálanna. Ríkisstjórnin verður að koma með sannfærandi rök um að ekki sé verið að setja Svein Margeirsson úr nefndinni vegna þessa. Hér nægir ekki tal um frændsemistengsl og meint prívatsamtal um lögmæti Magma. Þetta er ekki sannfærandi svo ekki sé tekið dýpra í árinni - miklu dýpra.  

Og hvað með Reykjavíkurborg? Ætlar stjórnarmeirihlutinn í Reykjavík að kæfa rannsóknartillögu Þorleifs Gunnlaugssonar eða gera hana að engu með útvötnun? Með því verður fylgst. Og þá ekki síst hvaða einstaklingum verður falið rannsóknarverknið í hendur. Verður leitað til skoðanaleysingja sem aldrei hafa rætt eitt að neitt sem tengist efnahagshruninu á Íslandi við frændur sína og frænkur? Í mínum huga eru slíkir skoðanaleysingjar vanhæfir til allra alvöru rannsóknarstarfa.  Skoðanir og hlutdrægni eru ekki af sama meiði. Við þurfum fólk með ríka réttlætiskennd, en sem vinnur heiðarlega og faglega og af ástríðu, með sannleikann að leiðarljósi. Nefndina dæmum við svo af verkum hennar.