Fara í efni

ÞURFUM BANKAKERFI SEM HÆGT ER AÐ TREYSTA Á


Svo er að skilja á fréttaumfjöllun að ég, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum VG, muni ekki ljá máls á því að setja meira fjármagn inn í bankakerfið því til bjargar ef til þess þyrfti að koma og er í þessu efni  stuðst við yfirlýsingar sem ég gaf fyrir skömmu á Bloomberg vefnum. Einhvers staðar sá ég hlakkað yfir því að þar með væri ríkisstjórnin hugsanlega fallin!

Ekki alveg svona einfalt

Svo einfalt er þetta mál ekki. Það er hárrétt haft eftir hjá Bloomberg að ég er í hópi þeirra sem bent hafa á að bankakerfið íslenska þurfi enn að skreppa saman en ekki þenjast út og að áður en fleiri krónur yrðu látnar renna þangað úr vösum íslenskra skattborgara yrði að færa mjög sannfærandi rök til þess að ég veitti mitt samþykki. Hver króna sem til bankanna rynni þyrfti nefnilega frekar að komast í hendur Landspítalans eða almannatrygginga. Þessu sjónarmiði hygg ég að aðrir þingmenn VG sem tjáð hafa sig um málið líkt og ég, deili. Þetta er ekki í nokkurri mótsögn við það grundvallarviðhorf að vilja gera allt sem unnt er til að stuðla að heilbrigðu bankakerfi sem hægt er að treysta á.

Hvenær hættir einkavæðing að vera einkavæðing?

Menn þurfa hins vegar að fara að átta sig á því að einkavæðing þýðir einkavæðing. Á sínum tíma, þegar bankarnir voru einkavæddir á einu bretti, sögðum við sum hver, að vafasamt væri að skera á naflastrenginn á milli skattborgarans og fjármálastofnana ef ætlast væri til einhvers frá hendi hins fyrrnefnda þegar á bátinn gæfi. Að þessu var hlegið svo hátt að undir tók og sagt vera viðhorf liðins tíma. Fulltrúar skattborgara mættu hvergi koma nærri um stefnumótun í fjármálakerfinu. Svo fór sem fór og síðan hefur  milljarðahundruðum verið dælt inn í gjaldþrotahít bankanna upp úr vösum skattgreiðenda. Aftur er nú farið að tala um sjálfstæði bankanna og sjálfstæðismenn sumir hverjir að nýju farnir að kyrja þann söng að ríkinu sé ekki treystandi til eins eða neins! Ég leyfi mér að segja fyrir eigin hönd og sennilega fleiri skattborgara í þessu landi: Nú er þörf á endurmati. Enga sjálftöku í mínum vasa takk.