EKKERT ÓÐAGOT


Sem formaður BSRB þurfti ég oft að fást við afleiðingar slakra vinnubragða innan stjórnsýslunnar. Það var ekki síst þegar ráðist var í vanhugsaðar breytingar sem ekki höfðu verið hugsaðar til enda. Í stað þess að gefa sér góðan tíma og ræða sig til niðurstöðu var ætt af stað; leiðsögumennirnir oft utanaðkomandi menn með formúlurnar á hreinu en þekkingarsnauðir um sjálfa starfsemina. Ég lærði þá að forðast bæri vinnubrögð af þessu tagi.
Þess vegna brá mér við fréttir RÚV í dag þar sem sagt var frá skipulagsbreytingum innan lögreglunnar, sem fréttastofan hafði "heimildir um." Fyrir mig voru þetta hins vegar fréttir - úr lausu lofti gripnar - og heyrir þessi málaflokkur þó undir ráðuneyti þar sem ég er í forsvari. Landssamband lögreglumanna mótmælti  sögusögnum fréttastofunnar sem ég efast ekki um að eru komnar frá embættismönnum sem ranglega telja sig hafa umboð til að ráðskast með stjórnsýsluna.
Staðreyndin er sú að þetta eru mál sem engan veginn eru útrædd og niðurstöður liggja ekki fyrir. Óðagotsvinnubrögð verða ekki viðhöfð á meðan ég gegni embætti dómsmálaráðherra.
Sem dæmi um vinnubrögð sem ég hins vegar kann að meta er umræðan um breytingar á réttarkerfinu sem ég fékk að kynnast á málþingi Lögmannafélagsins fyrir nokkrum dögum. Þar kom fram sameiginlegur skilningur lögmanna og dómara um nauðsynlegar  breytingar á dómskerfinu á þá lund að mynduð yrðu þrjú dómstig í stað tveggja. Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um þetta í tímans rás en ljóst er að umræðan er á enda runnin og að nú vilji flestir koma þessari hugmynd í framkvæmd. Jafnvel efasemdarmenn um skipulagsbreytingarnar fallast á þetta. Málið þykir útrætt.
 Af hálfu dómsmálaráðuneytisns hefur umræðan um þessar kerfisbreytingar  í réttarkerfinu verið vel undirbyggð í langan tíma. Skýrsla með þessum hugmyndum var sett fram í október 2008 og varð hún ágætur umræðugrundvöllur undangenginna missera.
Dómskerfinu á Íslandi á ekki að breyta í fljótræði og hið sama á við um löggæsluna. Breytingar þurfa að vera vel ígrundaðar og helst þarf að ríkja um þær sátt.  Þannig á að vinna að umsköpun stjórnsýslunnar almennt. Stundum er vissulega hægt að gera hlutina hratt. En óðagot á aldrei rétt á sér. Það er ávísun á vondar ákvarðanir.   

Fréttabréf