Fara í efni

SVARAÐ UM VELFERÐARGÖT


Fjölmiðlar og bloggsíður hafa talsvert fjallað um fund sem baráttusamtökin BÓT efndu til í Salnum í Kópavogi í gær. Þar á meðal er að finna umfjöllun á pressan.is. Þar kom fram að ég telji að göt hafi verið rifin á öryggisnet velferðarkerfisins  sem í samdrættinum séu að koma æ betur í ljós og að það sé höfuðkrafa á hendur stjórnvöldum að stoppa upp í þessi göt. Nú bregður svo við að varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason,  vaknar til lífsins og sakar mig um ósannindi á vefmiðlinum amx.is.
Þar hafði reyndar einnig birst pistill þar sem sagt var að ég yrði að vera maður til að standa við orð mín. Að þessu leyti tek ég undir með amx.is. Mikilvægt er að stjórnmálamenn séu látnir svara fyrir orð sín.
Staðhæfing mín byggir á eftirfarandi: Einn stærsti útgjaldaliður félítillar fjölskyldu er húsnæðiskostnaður. Fjárvana fjölskyldu hefur hár vaxtakostnaður og verðtrygging lána reynst ókleifur múr. Fyrir tuttugu árum var húsnæðiskerfið með þeim hætti að tekjulítið fólk hafði aðgang að lánum til húsnæðiskaupa sem báru 1% vexti. Þetta var í svokölluðu Verkamannabústaðakerfi. Á fyrri hluta tíunda áratugarins voru vextirnir í þessu kerfi hækkaðir í áföngum og síðan var félagslega kerfið að uppistöðu til afnumið undir aldamótin og hafa lán úr Íbúðalánasjóði til einstaklinga síðan að jafnaði borið vexti á bilinu 4 - 5% auk verðtryggingar. Hvað skyldi nú eitt prósentustig til eða frá skipta máli? Af 20 milljón króna láni er eitt prósent 200 þúsund krónur  á ári. Það munar um minna ef tekjurnar eru litlar!
Þetta er dæmi um það sem ég hef kallað spellvirki sem  unnið hefur verið á félagslega kerfinu á undanförnum árum og áratugum. Þá vil ég nefna að tilkostnaður vegna veikinda (komugjöld og þásttaka í læknisaðgerðum)   er nú meiri en hann áður var. Það er umhugsunarvert  að slíkur kostnaður var markvisst keyrður upp á þenslutíma  „góðærisins."  Hvers vegna? Varla vegna peningaleysis? Nei, það var yfirveguð stefna stjórnvalda á þeim tíma.
Þetta nefni ég sem dæmi máli mínu til stuðnings en sennilega eru þetta alvarlegustu dæmin um þau göt sem rifin hafa verið á öryggisnet velferðarkerfisins.
Á amx.is er því haldið fram að útgjöld til heilbrigðismála hafi verið aukin í góðærinu. En við þessu vil ég segja að spurningin snýst ekki bara um peningastreymið heldur hvernig fjármunum er varið og hvernig kerfi er byggt upp. Hið einkavædda bandaríska heilbrigðiskerfi er hið dýrasta í heimi. Þar eru velferðargötin jafnframt stærst. Mínar staðhæfingar snúa fyrst og fremst að kerfisbreytingum og hvernig þær snerta tekjulítið fólk.

Sjá umfjöllun á pressan.is: http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/ogmundur-eini-radherrann-a-hitafundi-um-fataekt-thad-voru-unnin-spjoll-a-velferdarkerfinu
Sjá umfjöllun á amx.is: http://www.amx.is/tenglar/113871/
 http://www.amx.is/fuglahvisl/15960/
Sjá ennfremur: http://www.vlfa.is/default.asp?SID_ID=9930&tID=2&Tre_Rod=&qsr