Fara í efni

TEKIÐ UNDIR MEÐ VARAÞINGMANNI

Arndís Soffía Sig
Arndís Soffía Sig
Krafa samfélagsins er gagnsæi og opin lýðræðisleg vinnubrögð. Þau eru forsenda þess að hægt sé að lýsa andmælum, samþykki, gagnrýna eða setja fram ný sjónarmið. Með öðrum orðum gagnsæi er forsenda upplýstrar rökræðu. Leyndahjúpurinn er einnig slæmur fyrir þá sök að undir honum þrífst oft spilling - eða getur gert.
Ekki hef ég nokkrar ástæður til að ætla annað en allt sem fram fer hjá Byggðastofnun þoli dagsljósið. En hvers vegna skyldi þá krafa Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, varþingmanns VG sem sæti á í stjórn Byggðastofnunar, eiga erfitt uppdráttar? Að mínu mati er krafa hennar um opna stjórnsýlsu fullkomlega réttmæt og  eðlileg. Tillaga hennar er þessi samkvæmt frétt á smugan.is: „Fundargerðir stjórnar Byggðastofnunar skulu gerðar opinberar til hins ítrasta og að því marki sem lög leyfa hverju sinni."
Arndís Soffía vill reyndar ganga skrefinu lengra og láta aflétta þagnarskyldu sem hvílir á stjórnarmönnum og starfsmönnum stofnunarinnar. Þetta krefst lagabreytingar og hefur Arndís Soffía boðað slíkt frumvarp þegar hún tekur sæti á Alþingi innan skamms. Þeir sem kunna að vera andvígir þessari tillögu þurfa að færa sannfærandi rök fyrir máli sínu.
Um þetta er fjallað hér: http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/4318