Fara í efni

UM BLEYJUR OG SÆRT STOLT

Í Wikileaks gögnum kemur fram að bandaríska sendiráðið telur að Kínverjar stundi hér iðnaðarnjósnir. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var inntur eftir sínu áliti um þessar ásakanir. Það var ég einnig. Í sínum fyrstu viðbrögðum vildi Kári ekki gera mikið úr þessu. Sama gilti um mig þegar ég var spurður álits sem dómsmálaráðherra. Kvaðst ég ekki myndu aðhafast nema að kæra bærist. Í viðtali við síðdegisútvarp Bylgjunnar velti ég síðan vöngum yfir njósnum - iðnaðarnjósnum og öðrum njósnum. Sagði ég ástæðu til að hafa áhyggjur af ásælni stórvelda, njósnum um skoðanir manna og gjörðir og vakti athygli á að erlend stórveldi væru áhugasöm um að tryggja hagsmuni sína þegar Ísland væri annars vegar. Nefndi ég Bandaríkin og Sovétríkin fyrr á tíð, Evrópusambandið og Kínverja í seinni tíð. Í þessu samhengi vék ég að Kínverjum sérstaklega sem ég hef áður sagt að væru greinilega mjög áhugasamir um Ísland. ESB tengi ég hins vegar ekki njósnum heldur áhuga á að gera Ísland að sínu áhrifasvæði á Norðurslóðum. Út á iðnaðarnjósnir gaf ég lítið.

Auðvitað er ég þess virði að njósna um!

Þetta fannst Kára Stefánssyni ekki nógu gott, eða gæti hugsast að mér væri ekki kunnugt um afreksverkin hjá Íslenskri erfðagreiningu? Svo var á honum að skilja að nokkurs virði væri að njósna um þau. Hinn nýi dómsmálaráðherra væri greinilega afglapi en mætur maður þó og bað Kári menn um að fara um hann mildum höndum þrátt fyrir afglöpin. Við hann ætti að gera sama og gert væri við lítil börn sem gerðu á sig. Á þau er sett bleyja, sagði hinn móðgaði forstjóri.
Við Kára Stefánsson vil ég segja þetta: Því fer fjarri að ég vilji gera lítið úr rannsóknum vísindamanna hjá Íslenskri erfðagreiningu og vissulega kunna kínverskir iðnaðarnjósnarar að hafa komið þar við sögu. Það er óvéfengjanleg staðreynd að ýmsar rannsóknarniðurstöður Íslenskrar erfðagreiningar eru mjög merkar og skipta máli á heimsvísu. Af þessu hygg ég að við séum öll stolt. Það á vissulega við um mig sjálfan.

Markaður ekki gjöfull fyrir grunnrannsóknir

Í umræddu útvarpsviðtali sagði ég að á tuttugustu öldinni hefðu grunnrannsóknir verið fjármagnaðar af hinu opinbera og semiopinberum háskólum. Þessi þekking hefði verið öllum opin og frjáls. Eða þar til markaðsvæðingin hóf innreið sína fyrir alvöru inn í þetta umhverfi undir lok síðustu aldar. Þessa umræðu tókum við í tengslum við stofnun ÍE á sínum tíma. Hún snerist um vísindarannsóknir, heilbrigðiskerfi og markað. Þarna vorum við Kári ekki á einu máli. Umræðan var á köflum harkaleg og hef ég grun um að hún hafi skilið eftir sig einhverjar minningar sem nú hafi tekið sig upp. Það er óþarfi. Þetta er liðin tíð þótt málefnalegur ágreiningur kunni enn að vera til staðar. Eftir stendur að það hefur reynst erfiðara en ýmsir ætluðu að fjármagna vísindastarfið á markaðstorginu. Á þetta hef ég oft bent í tímans rás og gerði að umræðuefni í umræddu útvarpsspjalli...

Merkilegt vísindastarf

Um hitt deili ég ekki að á vegum fyrirtækis Kára Stefánssonar hefur verið unnið merkilegt vísindastarf og á ég fáar óskir heitari en að það starf fái dafnað sem allra mest - og þá hér á landi. Hafi Kínverjar gerst sekir um að njósna um Kára Stefánsson og samstarfsmenn er sjálfsagt að brugðist verði við. En þá þarf rökstuddur grunur og kæra að koma fram.

Tengingar á viðtöl 6. og 7. des.:
http://www.visir.is/article/2010344978629
http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP1146