Fara í efni

AD HOMINEM


Á latínu er til hugtak sem margir eflaust þekkja, ad hominem eða argumentum ad hominem.  Þetta er notað þegar rökræða beinist að persónu þess sem heldur fram málstað fremur en málstaðnum sjálfum. Í pistli hér á síðunni, Er verið að biðja um þögn? , fjallaði ég um fjölmiðla og tilhneigingu þeirra til að gera einmitt þetta, að beina athygli að málflytjanda en ekki málstað. Þótti mér þessi afstaða einkenna gagnrýnisleysi og yfriborðsmennsku sem var einkennandi í aðdraganda hrunsins. Sjálfur hef ég oft fengið að kynnast þessu.
En viti menn, það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann... Í umfjöllun minni  vísaði ég máli mínu til stuðnings í önugheitapistla sem ég fann í vefbloggi  eftir valinkunna fjölmiðlamenn. Mátti á mér skilja að þar með teldi ég mig hafa fundið hrunverjana sjálfa! Þetta tók Egill Helgason, silfursmiður, óstinnt upp og var fljótur að bera af sér sakir og benda á að fáir hefðu verið iðnari að færa okkur gagnrýnin viðhorf heim í stofu á undanförnum árum en einmitt hann í Silfrinu. Skyti hér því skökku við. Ekki vil ég hafa uppi ómaklega gagnrýni eða að mál mitt misskiljist gagnvart Agli eða öðrum einstaklingum sem átt hafa góða spretti í fjölmiðlum. Rétt skal vera rétt.
Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/er-verid-ad-bidja-um-thogn 
og  http://silfuregils.eyjan.is/2011/01/12/vg-ogmundur-og-malefnin/#comments
og áður http://eyjan.is/2011/01/11/ogmundur-jonasson-hrunverjar-ad-storfum-i-fjolmidlunum/
og http://www.amx.is/fuglahvisl/16493/