Fara í efni

GJÖFULL SAMFERÐARMAÐUR KVADDUR


Thor Vilhjálmssson, rithöfundur, var stórveldi og fyrirferðarmikill eftir því. Það var hann allan síðari hluta tuttugustu aldarinnar og allt fram í andlátið. Í dag fór útför Thors fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík og var yfir henni reisn og frumleiki - mjög í anda skáldsins. Það var mín tilfinning; allt frá því Steindór Andersen kvæðamaður hóf upp raust sína og kvað  hetjuljóð Þóris Jökuls  frá 13. öld í upphafi athafnarinnar. Ljóðið er sterkt og í flutningi Steindórs í Dómkirkjunni, við útför Thors Vilhjálmssonar í ofanálag,  hreinlega magnað!  Ljóðið hæfði tilefninu, því það fjallar um æðruleysi hins hugrakka manns á dauðastund ...Skafl beygjat þú skalli, þó að skúr á þig falli. Ást hafðir þú meyja. Eitt sinn skal hver deyja.

Sigurður Pálsson, skáld, gerði þessa stund ógleymanlega - ef ekki ódauðlega -  því svo sterk var hugvekja hans um Thor Vilhjálmsson: Magnað listaverk.

Fjöldi annarra listamanna kom fram sem gerðu þessa kveðjustund þannig að sæmdi miklum andans manni, litríkum og skemmtilegum - óvenju gjöfulum samferðarmanni.