Fara í efni

LISTAMAÐUR UM LISTAMANN


Sá í gærkvöldi annan hluta myndar Erlendar Sveinssonar, Draumurinn um veginn, pílagrímsganga Thors Vilhjálmssonar eftir norðurhluta Pýrenaeaskagans í átt að Santiago de Compostela, vestast  á Norður Spáni.
Þeir Erlendur og Thor ríma vel. Thor, magnþrunginn heimspekingur, orðjöfur, eins og Erlendur kallaði hann í ávarpsorðum sínum til frumsýningargesta. Erlendur, með sögu heimspeki og trúar inngróna í eigin vitund. Og sem listamaður brást hann ekki væntingum. Í myndinni fjallar listamaður um listamann. Djúpur innsæistextinn, landslagið, samspil fortíðar og nútíðar og íslenskrar náttúru og spænskrar, og svo sagan, mynduðu sterka heild.
Klippingar og sviðsmyndir voru magnaðar. Kvikmyndataka Sigurðar Sverris og Erendar var frábær, hljóð unnið af næmni, vindurinn í grasinu og trjánum, andardráttur og marrið undir skóm göngugarpsins, stafur hans rekinn taktfast í götuna eða að teikna í snjóinn í íslensku fjalli. Tónlistin, hvort sem var trúarákall sunnan úr álffu eða Jón Leifs, átti alltaf erindi. Heildaryfirbragðið var eins gott og hugsast getur enda mátti sjá á lista yfir þá sem unnu að myndinni nöfn margra okkar bestu fagmanna.
En Erlendur var maður sköpunarverksins númer eitt  og á hann lof skilið. Thor sagði í myndinni að það væri listamanna að glæða drauma lífi. Það má eflaust til sanns vegar færa að ekki þarf kraftaverkamann til að glæða Thor Vihjálmsson lífi eins mikið lifandi og sá maður var í nánast hverju orði og hverjum andardrætti. Og þótt hann sé nú látinn lifir hann með okkur öllum.
En að gera 800 kílómetra göngu, jafnvel með Thor Vihjálmssyni, spennandi þannig að maður njóti hverrar mínúntu, er afrek.
Og afrekið er Erlendar og félaga. Því þótt efniviðurinn - pílagrímsgangan, sagan, tónlistin, trúarbrögðin, landslagið  og að sjálfsögðu Thor - séu ekki af verri endanum þá þarf listamann til að spinna þessa þræði saman í taug sem heldur.
Thor Viljálmsson