ÞYRFTUM ÖLL AÐ VERA FRÁ TRÉKYLLISVÍK


Það var hressandi að koma til Ísafjarðar á ríkisstjórnarfund en lengi höfðum við  haft á prjónunum að halda fund á Vestfjörðum.
Í tengslum við ríkisstjórnarfundinn var efnt til funda þar sem okkur var kynnt starfsemi í atvinnu-, menningar- og menntamálum. Þá var haldin sameiginleg ráðstefna ríkisstjórnar og vestfirskra sveitarstjórnarmanna um málefni sem á þessum landshluta brenna. Þar loga svo sannarlega eldarnir í þeim skilnigi að fólki hefur fækkað og þrengst hefur að  sveitarfélögunum í seinni tíð. Margt hefur þarna vegið þungt en þyngst án efa að missa heimildir til fiskveiða til annarra landshluta.

Enginn á hnjánum
Við áttum hins vegar ekki samræður við beygt fólk. Því fór fjarri. Sjaldan hef ég setið fundi með eins kraftmiklu fólki, bjartsýnu og innblásnu af lífsvilja. Hver ræðumaðurinn á fætur öðrum hreyfði við þeim sem á hlýddu með ígrunduðum og sannfærandi málflutningi og sagði fundarstjórinn í fundarlok, hinn gamalreyndi sveitarstjórnarmaður Magnús Reynir Guðmundsson, eitthvað á þá leið að síst færi sveitarstjórnarmönnum aftur ef dæma skyldi af þessum fundi!

Krafan: Sama og aðrir
Fundinn opnaði Albertína F. Elíasdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, þá kom Ásthildur Sturludóttir, sveitarstjóri úr Vesturbyggð, svo Eyrún I. Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps og Elías Jónatansson, bæjarstjóri Bolungavíkurkaupstaðar. Lestina rak í hópi framsögumanna, Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar. Fleiri tóku til máls í umræðunum og má þar nefna Daníel Jakobsson, bæjarstjóra á Ísafirði.
Rauði þráðurinn í málflutningi sveitarstjórnarfólksins var öllum augljós: Við viljum sitja við sama borð og aðrir landsmenn í samgöngumálum, hvað varðar húshitunarkostnað, flutningskostnað og velferðarþjónustu. Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir.

Heilnæm rótfesta
Margt var vel sagt á þessum fundi. Eftirminnileg eru orð Ingibjargar, sveitarstjóra Strandabyggðar, sem minntist æskuára sinna í Trékyllisvík. Sú vík væri ekki smá í sínum huga heldur stór og hefði farið vaxandi í vitund sinni eftir því sem á ævina hefði liðið og hún sjálf  farið víðar um heiminn. Henni mæltist á þá leið að sér fyndust forréttindi að færa ungu barni sínu þennan stað til fá rótfestu fyrir lífið.

Þegar smátt er stórt
Mér varð að umhugsunarefni við þessi orð hve margt er afstætt. Stór staður getur verið lítill í huga manns en lítil vík mikil um sig. Stundum er litið á það sem veikleika að koma úr fámenni en styrkleika að koma frá stórri borg í stóru landi. En jafnvel í borginni búa menn í húsum, stórum en líka smáum húsum, í götum, breiðum og þröngum, stuttum og löngum.
Í stórum löndum fæðist fólk í þéttbýli eða dreifbýli, upp til fjalla eða til sjávar. Uppruninn er ekki höfuðatriði heldur sýn okkar á hann, sjálfsvitund okkar. Þegar öllu er á bottninn hvolft erum við  öll frá okkar Trékyllsivík. Aðeins að við komum auga á hana.

Afreksverk á Snæfjallaströnd
Listsköpun Sigvalda Kaldalóns er merkilegt dæmi um andans afreksverk unnin í fámenni og við þröngar aðstæður. Á öndverðri öldinni sem leið var hann læknir á Snæfjallaströndinni með búsetu í Ármúla. Mér hefur alltaf þótt það til marks um menningarbrag og stórhug sveitunga hans þegar þeir gáfu honum flygil til að geta iðkað list sína. Þetta var á engum allsnægtartímum, engin þotuöld og efnin engin. Í flugvélinni á leiðinni vestur las ég skemmtilega grein eftir Gísla Kristjánsson, Tónelskir læknar heitir hún, þar sem hann fjallar nokkuð um Sigvalda og nefnir þar að ljóðin í lög sín hefði hann m.a. sótt til sveitunga síns Hallfríðar Guðrúnar Eyjólfsdóttur, Höllu á Laugabóli, Ég lít í anda liðna tíð og Svanurinn minn syngur, séu dæmi þar um. Sjálfum finnt mér Ave María, Sigvalda Kaldalóns engu gefa eftir útsetningum fremstu tónskálda Evrópu. Reyndar finnst mér hún best!
Enginn getur borið brigður á að í heiminum öllum stóð Sigvaldi Kaldalóns, í Ármúla á Snæfjallaströnd í fremstu röð þjóna listagyðjunnar og mun minning hans alltaf lifa og verða samofin menningarsögu okkar.

Virkjum sköpunarkraftinn
Gísli Kristjánsson segir í grein sinni að Sigvaldi Kaldalóns hefði alla tíð talið þekkingu sinni í tónfræði áfátt. Það minnir okkur á mikilvægi þess að hlúa vel að menntun, ekki síst í listum. Ég hef stundum sagt að það besta sem hægt væri að gefa börnunum okkar væri tónlist og tungumál. Eflaust margt fleira. Kannski á þetta við um alla menntun, þá tegund menntunar sem losar um andann og kennir okkur að sjá hið smáa í stóru samhengi.
Það sem Ingibjörg Strandakona og valkyrjurnar af Vestfjöðrum voru að segja - fyrirgefiði strákar, þið voruð líka flottir - var ef til vill fyrst og fremst þetta: Við megum aldrei gleyma því að alls staðar búa í fólki hæfileikar og sköpunarkraftur. Á hann má ekki stíga. Hann verður að virkja og láta blómstra okkur öllum til góðs.

Fréttabréf