VIÐ STEINGRÍMUR

Valdapólitík er ekki bara að finna í sjálfri pólitíkinni heldur
í allri umgjörðinni - félagsumhverfinu og í fjölmiðlum. Þannig
túlkar margt fjölmiðlafólk allan ágreining innan stjórnmálanna í
ljósi valda og baráttu um völd. Ágreiningur sem fram hefur komið
innan VG hljóti þannig að vera til orðinn vegna baráttu milli
einstaklinga um völd og embætti. Í mínum flokki hljóti þeir sem eru
á öndverðum meiði við formann flokksins í einstökum málum að
ásælast valdastól hans. Þetta hefur verið mitt hlutskipti í
umfjöllun sumra fjölmiðla um alllangt skeið. Nú síðast er að finna
eina slíka útleggingu í DV. Sjá hér: http://www.dv.is/sandkorn/2011/4/8/allt-vitlaust-i-vg_nuna/
Staðreyndin er sú að við Steingrímur J. Sigfússon höfum verið nánir
félagar svo lengi sem ég man eftir mér í pólitíkinni. Og fyrir
kynni okkar þar var okkur vel til vina á fréttastofu Sjónvarps, í
þann mund sem Steingrímur var að hefja innreið sína í pólitíkina og
ég í verkalýðspólitíkina. Þetta var upp úr 1980. Á langri vegferð
höfum við að sönnu orðið ósammála um einstök mál - mjög heiftarlega
um Icesave - því er ekkert að leyna. En miklu oftar höfum við
verið fullkomlega samstiga og eru góðar minningar af góðu samstarfi
miklu fleiri en þær sem eru miður góðar. En í þessu máli var
félaga mínum lítið gefið um mína framgöngu sumarið og haustið 2009
og framá árið 2010 og mér ekki sérlega skemmt yfir framgöngu
ríkisstjórnarinnar. Síðan tók málið breytingum sem kunnugt er og
aftur náðum við saman.
Ágreiningur í einstökum málum breytir því ekki að við höfum verið
samherjar og aldrei, ALDREI, hef ég ásælst þann stól sem hann situr
á, formannsstólinn í VG - þrátt fyrir endalaust fjölmiðlatal þar um
- og er sú hugsun eins fjarri mér og framast má vera. Alla tíð hef
ég stutt Steingrím sem formann Vinstrihreyfingarinnar græns
framboðs - allar götur frá því við fórum um landið í ótal ferðum
frá árinu 1998 til að undirbúa stofnun Vinstrihreyfingarinnar
græns framboðs. Síðan höfum við marga fjöruna sopið saman.
Hvers vegna sé ég ástæðu til að skrifa þennan pistil?
Það geri ég vegna þess að mér mislíkar stórlega og blöskrar
mjög svo, hin þrálátu dylgju- og rógsskrif sem greinilega eru til
þess gerð að spilla samstarfi innan Vinstrihreyfingarinnar græns
framboðs og þá sérstaklega milli mín og míns gamla félaga,
Steingríms J. Sigfússonar. Mál er að linni.