Fara í efni

VÍTT SJÓNARHORN Í MANNRÉTTINDABARÁTTU EÐA...


Mikilvæg umræða hefur spunnist bæði hér á landi og í Evrópu í kjölfar þess að breskur lögreglumaður, Mark Kennedy, varð uppvís að því að brjóta lög í starfi sínu sem flugumaður innan náttúrverndarsamtaka víða í Evrópu. Þetta gerði hann með því að stofna til kynferðislegs sambands við konur í þessum hópum. Einnig eru uppi ásakir um að hann hafi beinlínis hvatt baráttufólk fyrir náttúrvernd til að brjóta lög í þágu málstaðarins (sjá slóðir hér að neðan). Þannig gera fjölmiðlar því skóna að þessi einstaklingur og hugsanlega fleiri hafi komið sér fyrir innan raða mótælenda beinlínis til að hvetja til ofbeldis og lögbrota til þess að koma óorði á mótmælendur.

Hið alvarlega í þessu eru lögbrotin í sínu félagslega samhengi. þannig skoðuð eru þau hreinlega „tilræði við lýðræðið" einsog ég orðaði það í yfirlýingu á vef Innanríkisráðuneytisins sem var birt samhliða skýrslu ríkislögreglustjóra um málið. Skýrslan var unnin í framhaldi af fyrirspurnum mínum til embættisins um hvort íslensk lögregluyfirvöld hafi haft vitneskju um veru breska lögreglumannsins hér á landi í tengslum við mótmæli gegn Kárahnjúkavirkjun árin 2005 og 2006. Er því svarað á þann veg að ekki hafi komið fram upplýsingar sem geri kleift að skera úr um hvort Kennedy hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar. Hins vegar kemur einnig fram - og er það ekki síður mikilvægt - að íslensk lögregla hafi fengið upplýsingar erlendis frá um mótmælin á Kárahnjúkum, án þess þó að vita með hvaða hætti slíkar upplýsingar voru fengnar eða hvernig þeim var safnað.

Á þessum tíma var ekkert að finna í íslenskum lögum eða reglum um starfsemi flugumanna. Því er ekki hægt að halda því fram að þetta hafi verið ólöglegt, hvort sem lögreglan vissi af eða ekki. Flugumönnum og tálbeitum er markvisst beitt af lögreglu í hinum alþjóðlega glæpaheimi þar sem harðsvíraðir brotmenn leggja á ráðin um um eitruefnaviðskipti, mansal og gróft ofbeldi. Við flugumenn á slíkum vettvangi  hef ég ekkert að athuga..
Þegar hins vegar um er að ræða pólitísk samtök eða grasótarsamtök gildir allt öðru máli. En þarna hafa landamæri verið óljós - eða það sem verra er nánast engin.
Þessi mörk vil ég nú að verði skýrð og þá þannig að ekki verði leyfðar njósnir í slíkum samtökum enda slíkt tilræði við lýðræðið sem áður segir. Þessum sjónarmiðum gerðu margir fjölmiðlar góð skil og almennt hefur þessari viðhorfsbreytingu verið fagnað þótt til séu þau sem hafa kosið að skoða málin ekki frá þessu víða sjónarhorni mannréttindabaráttunar heldur út úr músaholunni, sbr. hér: http://www.smugan.is/pistlar/penninn/arni-finnsson/nr/5953)
Enn eitt atriði. Ástæðan sem lögregluyfirvöld í Evrópu hafa tilgreint sem réttæltingu á því að fara inn í tiltekna andófshópa er að þar sé að finna skemmdarverkafólk og jafnvel ofbeldisfólk. Stundum hefur þetta reynst vera svo.
En getur verið að slíkir erindrekar hafi í sumum tilfellum verið á vegum stjórnvalda? Svo virðist hafa verið um Mark Kennedy. Það er staðfest að hann var breskur lögreglumaður og þess vegna á ábyrgð bresku lögreglunnar. Og hvað með óprúttna fjölþjóðarisa sem einskis hafa svifist að sölsa undir sig auðlindir? Liggur ekki í augum upp að freistandi er fyrir slíka aðila, sem þekktir eru af því að víla ekkert fyrir sér, að koma óorði á mótmæli með því að æsa til aðgerða sem falla illa í kramið hjá samfélaginu, sverta góðan málstað og þá sem vilja halda honum uppi?
Þessar umræður hafa vonandi tvær afleiðingar. Annars vegar þá að mörkin milli glæpahópa og grasrótarsamtaka verði ekki aðeins skýr í lögum og reglum heldur líka í hugum okkar allra. Hins vegar að mótmælendur og aðgerðarsinnar verði á varðbergi gegn flugumönnum sem tala digurbarkalega en hafa síðan fátt til málanna að leggja annað en að hvetja til lögbrota og ofbeldis.

Sjá slóðir:
Spegillinn: http://dagskra.ruv.is/ras2/4553294/2011/05/17/
Guardian: http://www.guardian.co.uk/environment/mark-kennedy?page=4.
http://www.guardian.co.uk/world/2011/feb/20/germany-undercover-police-g8-protests
Smugan: http://www.smugan.is/pistlar/fastir-pennar/nr/5963