Fara í efni

KJARNINN ÞARF AÐ VERA TIL STAÐAR


Þegar hlaup í Múlakvísl tók brúna fyrir rúmri viku heyrðist einhver segja að kalla þyrfti til aðstoðar erlendar hersveitir, í það minnsta fá einkaframtakið til að leysa verkefnið því ekkert bólaði á viðbrögðum Vegagerðarinnar.
Smám saman kom í ljós á hve miklum misskilningi þessar fullyrðingar voru byggðar.

Allar vélar ræstar

Í fyrsta lagi hóf Vegagerðin undirbúning framkvæmda nánast samstundis eftir að af hamförunum fréttist að morgni laugardags 9. júlí. Teikningar af brábirgðamannvirki voru á vinnsluborði frá fyrstu stundu, birgðir Vegagerðarinnar höfðu verið kannaðar og kortlagðar á hádegi sama dag og kom þá í ljós hve mikla fyrirhyggju Vegagerðin sýnir til að geta brugðist við aðstæðum sem þessum. Stálbitum og öðru efni úr gömlum brúm hefur verið haldið til haga, allt skráð og aðgengilegt. Þegar var farið að kalla menn til starfa, undirbúa grjótnám í varnargarða, flutninga á svæðið og skipuleggja allt verkið. Ljóst var frá fyrstu stundu að allar vélar yrðu ræstar til að ljúka verkinu eins hratt og kostur væri. Vegamálastjóri sagði að menn myndu leggja nótt við dag þótt allt gæti gerst þegar við jökulfljót væri að glíma, þess vegna mætti ekki vekja falsvonir.

Brú á fjórum sólarhringum!

Síðan tók eitt við af öðru. Á mánudegi hófust selflutningar yfir fljótið jafnframt því sem brúarsmíðin hófst. Hún tók rétta fjóra sólarhringa sem hlýtur að teljast afreksverk enda brúin 155 metrar á lengd. Þá átti eftir að breyta farvegi fljótsins og mynda varnargarða. Það tókst og var ný brú opnuð viku eftir hamfarirnar. Var vel við hæfi að þeir fyrstu sem fóru yfir brúna til að opna hana formlega voru brúarsmiðirnir, hjálparsveitarmenn og fulltrúar löggæslu sem sameiginlega stóðu þessa vakt.

Doktor í Markarfljóti

Hvað varðar hina erlendu heri og þekkingu þeirra þá er ég sannfærður um að þeir myndu leita í smiðju Íslendinga þyrftu þeir að glíma við jökulfljót. Ætli doktor í Markarfljóti, eins og vegmálastjórinn okkar, hefði ekki meiri þekkingu á þessum málum en þeir sem ekkert til þessara náttúruafla þekkja? Ég fletti að gamni mínu upp ferilskrá Hreins Haraldssonar, vegamálastjóra og sá þá að hann er jarðfræðingur, sérhæfður í mannvirkjafræði og jarðverkfræði. Þannig er því varið með aðra stjórnendur og verkstjóra hjá Vegagerðinni, þeir búa yfir þekkingu og reynslu.

Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar

Kem ég þar að brúarvinnuflokkum Vegagerðarinnar. Þeir eru tveir, annar á Hvammstanga, hinn í Vík. Nú hefur það enn einu sinni sannast hve mikilvægt er að þessir flokkar séu til staðar, reynslunnar og verkþekkingarinnar vegna. Síðan er það hitt að sjálfstæðir verktakar koma einnig að málum og gerðu það myndarlega núna. Nefni ég þar Suðurverk sérstaklega. Þannig starfar Vegagerðin: Hún er blanda af kjarnastarfsemi sem hún býr yfir sjálf og leitar auk þess út á markaðinn. Þannig á það að vera.
En forsenda þess að þetta gekk upp var utanumhald Almannavarna og lögreglunnar og síðan að sjálfsögðu hjálparsveitirnar.  Þær eru gulls ígildi og eiga mikið lof skilið fyrir sitt óeigingjarna starf!

Sjá frásögn á vef  innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27224