Fara í efni

MÁLEFNI HÆLISLEITENDA: EYÐUM MISSKILNINGI OG MISTÖKUM

DV
DV

Birtist í DV 25.07.11.
Ég gef mér að No Borders samtökin starfi í þeim anda, sem heiti samtakanna ber með sér, nefnilega að fólki skuli ekki torveldað að fara yfir landamæri og að þeir sem eru á flótta undan ranglæti fái hæli. Þetta eru virðingarverð markmið og mikilvægt að stjórnvöldum sé jafnan haldið við efnið í mannréttindamálum. En á sama hátt og þessi málstaður þarf að njóta sannmælis þá þarf einnig að láta þá njóta sannmælis sem framfylgja þeim reglum sem við sem samfélag höfum sett okkur í samvinnu við aðrar þjóðir.

Vöndum umræðuna

Fjöldi fólks í heiminum er á flótta undan erfiðu hlutskipti, sumir hundeltir af harðstjórum í heimalandi sínu fyrir að taka þátt í mannréttindabaráttu, aðrir jafnvel á flótta undan þrælahöldurum eins og fullyrt er um ungan mann frá Máritaníu en mál hans hefur verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum að undanförnu. Síðan er hitt til líka að misindismenn eru á flótta undan réttvísi einsog dæmin sanna.
Þess vegna er varasamt að alhæfa um hælisleitendur og mikilvægt að allir sem að umræðu um þessi viðkvæmu mál koma, vandi sig og byggi á eins traustum upplýsingum og kostur er. Það hefur ekki verið gert í þeirri opinberu umræðu sem fram hefur farið um málefni fyrrnefnds hælisleitanda frá Máritaníu.

Réttarstaða hælisleitenda styrkt

Nánast öll ríki í okkar heimshluta hafa fengið til sín fjölda hælisleitenda sem óskað hafa eftir því að fá pólitískt hæli. Löggjöf í einstökum ríkjum er mismunandi en íslensk stjórnvöld hafa á síðustu misserum leitast við að styrkja réttarstöðu hælisleitenda bæði með laga- og reglugerðarbreytingum. Enn þarf að bæta regluverkið og alla framkvæmd og er unnið að því í innanríkisráðuneytinu.
Svokallað Dyflinnarsamkomulag sem Íslendingar auk annarra ríkja á Schengen-svæðinu eiga aðild að felur í sér viðmið fyrir því hvaða aðildarríki skuli bera ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli, þ.á. m. um fjölskyldusameiningu, hvar einstaklingur hefur sótt fyrst um hæli, hvort einstaklingur hafi fengið útgefið dvalarleyfi eða áritun o.s.frv.
Nokkur brögð voru að því að hælisleitendur reyni fyrir sér samtímis í mörgum löndum en Dyflinnareglugerðin á að stuðla að því að einstaklingurinnn fái málefnalega umfjöllun á einum stað. Að sjálfsögðu þarf að að vera tryggt að sú umfjöllun sé málefnaleg og í samræmi við mannréttindareglur.

Íslendingar og Norðmenn riðu á vaðið

Ástæðan fyrir því að Íslendingar ákváðu - ásamt Norðmönnum -  fyrstir þjóða að senda hælisleitendur ekki til Grikklands var einmitt sú að Mannréttindadómstóll Evrópu taldi ekki tryggt að hælisleitendur fengju þar viðunandi skoðun sinna mála og aðbúnaður þeirra væri ekki sem skyldi.
Sá einstaklingur sem hefur verið til umfjöllunar hér og er frá Máritaníu sótti um hæli í Noregi og þar er hans mál til umfjöllunar. Við höfnun þar getur hann gert nákvæmlega það sama og hér á landi: hann getur kært niðurstöðuna fyrir dómstólum. Staðreyndin er sú að málsmeðferð í Noregi er svipuð og hér á landi enda hafa Íslendingar sótt fyrirmynd til Noregs um lög og alla framkvæmd í málefnum hælisleitenda. Norðmenn hafa staðið flestum þjóðum framar um vandaða afgreiðslu mála en við þó sótt í okkur veðrið sem áður segir.

Rangar ásakanir

Ásakanir um að íslensk stjórnvöld séu að senda einstakling í þrældóm eða út í opinn dauðann eru grafalvarlegar. Samkvæmt því sem ég best veit eru þær hins vegar sem betur fer rangar. Fyrir liggur að ekkert í gögnum, sem okkur hafa borist í þessu máli eða öðrum sem hafa verið til umjöllunar í Noregi, bendi til þess að málsmeðferð þar hafi verið ósanngjörn eða að umsóknir fái ekki vandaða og sanngjarna málsmeðferð í Noregi. Enda er almennt litið svo á að málsmeðferð norskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og þar sé farið eftir ákvæðum flóttamannasamningsins og mannréttindasáttmála Evrópu. Þess vegna leyfi ég mér að trúa því að norskt réttarkerfi sendi ekki ungan mann í hendur þrælahaldara.
Þá er rangt sem haldið er fram að ekki hafi verið reynt að veita viðkomandi einstaklingi viðunandi túlkaþjónustu. Ég óskaði sérstaklega eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um það efni. Þótt ekki væri hægt að finna túlk sem talaði bæði máretaníska tungumálið wolof og jafnframt íslensku tókst engu að síður að búa svo um hnúta með hjálp túlka, samkvæmt þeim upplýsingum sem mér hafa verið veittar, að aðilar skildu hvor annan á fullnægjandi hátt.

Um kjarna máls

Samkvæmt mínum upplýsingum var hælisleitandanum frá Máritaníu leiðbeint um hvernig hann ætti að bera sig að við að kæra úrskurð Útlendingastofnunar og naut hann einnig aðstoðar Rauða krossins. Var honum skipaður talsmaður sem kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið rétt en frekari kæra er síðan aftur til meðferðar í ráðuneytinu. Ekkert nýtt hefur hins vegar komið fram, samkvæmt mínum upplýsingum, sem sýnir fram á að þær forsendur sem byggt var á standist ekki; ef svo hefði verið hefði ráðuneytið endurskoðað úrskurð sinn. Eftir stendur að hælisleitandanum beri að fara til Noregs og ljúka sínu máli þar. Sé það ekki íslenskra stjórnvalda að skerast í það ferli.
En hvaða leið ætla Íslendingar að fara? Ætlum við að virða að vettugi málsmeðferð ríkja á borð við Noreg, sem sannanlega hafa verið að reyna að standa sig í mannréttindmálum? Ef við gerum það og tökum á móti öllum sem er hafnað í Noregi og þess vegna annars staðar, þá þarf að gerast kraftaverk til að við getum tekið sómasamlega á móti öllum þeim fjölda fólks sem til okkar myndi leita. Hinn kosturinn er að virða þessi ferli og bæta jafnframt réttarstöðu hælisleitenda hér á landi. Sá kostur er betri að mínu mati og þá leið erum við að feta þótt of hægt gangi. En þetta er kjarni máls.

Rangfærslur og rangindi leiðrétt

Venjan hefur verið sú að ráðuneyti ræði ekki málefni einstaklinga við aðstæður sem þessar. Það geri ég heldur ekki nema að takmörkuðu leyti. Þegar hins vegar stjórnvöldum er borið á brýn að brjóta freklega mannréttindi á einstaklingi, þá hlýtur það að kalla á viðbrögð. Annað er að málefnið er þess eðlis að þögn um það er varasöm. Iðulega eiga í hlut einstaklingar sem búa við erfiðustu aðstæður sem hægt er að hugsa sér og geta varðað líf og dauða. Umræðuna vil ég því taka alvarlega. Með opinni umræðu er einnig hægt að eyða misskilningi, leiðrétta ósannindi og þá hugsanlega einnig mistök sem kunna að eiga sér stað hjá öllum hlutaðeigandi. Þar er ég sjálfur að sjálfsögðu ekki undanskilinn.