Fara í efni

HEGGUR SÁ ER HLÍFA SKYLDI


Heimur heimils- og stofnanaofbeldis er smám saman að opnast. Sem betur fer. Hrikalegir hlutir hafa gerst og eru að gerast í skjóli leyndar og þöggunar. Stórkostlegt var að verða vitni að hugrekki fyrrum nemenda í  Landakotsskóla sem stigu fram og sögðu sína sögu um hræðilegt ofbeldi sem þeir höfðu sætt í skólanum. Eftir því sem fleiri stíga fram þeim mun sterkari verða fórnarlömb ofbeldis bæði sem hópur og sem einstaklingar. Það sannaðist í Landakotsmálinu.
En mikið er ógert. Allar stofnanir, allar starfsstéttir og eintaklingar þurfa að horfa inn á við því öll myndum við þagnarmúrinn með einum eða öðrum hætti; múr sem okkur ber siðferðileg skylda til að rjúfa.
Mér þótti áhrifarík frásögn drengs af hrottalegu heimilsofbeldi sem fyrir fáeinum dögum birtist víða á vefnum og þar með talið á vefsíðunni bleikt.is. Þar lýsir drengurinn því hvernig skjólið sem heimili á að vera breyttist í vígvöll. En ekki nóg um það, heldur fann hann ekki skjól í skólanum. Það voru ekki einungis nemendur sem veittust að niðurbrotnum drengnum heldur líka sá sem síst skyldi -kennarinn.  Viðbrögð kennarans voru viðbrögð ofbeldismanns. Ekki veit ég hvaða skóli átti í hlut eða kennari. Vonandi reyna allir skólar að ganga úr skugga um að þessi frásögn eigi ekki við um þá og muni vonandi aldrei eiga við um þá.

Frásögnin á bleikt.is: http://www.bleikt.is/lesa/heimilisofbeldierekkerttiladfelaogekkieineltiheldur/