Fara í efni

SAMGÖNGUÞING Í MEXÍKÓ


Í dag lýkur í Mexíkó ráðstefnu World Road Association í Mexíkó. Einn fulltrúi sækir ráðstefnuna auk mín fyrir hönd Innanríkisráðuneytisins, en auk okkar eru hér fulltrúar Vegagerðarinnar.
Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri,  á sæti í framkvæmdastjórn þessara heimssamtaka og  gegnir auk þess formennsku í  hinum norræna hluta þeirra. Norrænu samtökin eru með myndarlega sýningarbása undir sameiginlegri, fánum skrýddri, regnhlíf Norðurlandanna. Íslenski básinn er mjög góður og vekja magnþrungnar myndir af samgöngumannvirkjum, í skugga eldgosa og annarra náttúruhamfara, áhuga ráðstefnugesta sem telja hátt í þjú þúsund fulltrúa frá öllum heimshornum. Einnig vekur athygli hve vel Vegagerðin íslenska nýtir sér allt það sem tæknin býður upp á. Þarna var hægt að sjá hvernig viðhald á íslenskum vegum - viðbragð og eftirlit - er meira og minna orðið tölvuvætt og fékk ég að vita að þarna standa Íslendingar framarlega í flokki ásamt Dönum - framar hinum Norðurlandaþjóðunum. Með mikilli hugkvæmni og þekkingu á möguleikum tækninnar hefur tekist að spara umtalsverða fjármuni jafnframt því sem nýting og gæði eru aukin.

Jákvæð mynd af íslensku verkviti

Ánægjulegt var að sjá hve vel við komum út í alþjóðlegu samhengi hvað þetta varðar og hve mikilvægt það er að við birtum þessa jákvæðu mynd af íslenskri  verk- og tækniþekkingu á alþjóðavettvangi.
Margt hef ég lært á því að sitja þessa ráðstefnu og hlýða á erindi og umræður. Þannig var áhugavert seminar um fjármögnun og eftirlit sem Hreinn Harladsson stýrði. Fulltrúi Alþjóðabankans flutti þar erindi ásamt fleirum og kom meðal annars fram i erindi hans að á árabilinu 2000 til 2010 hefði  56 milljörðum Bandaríkjadala verið varið í lánveitingar til vegaframkvæmda á vegum Alþjóðabankans. Síðan rakti þessi fulltrúi Alþjóðabankans hver hefðu orðið afdrif rúmlega fimm hundruð kærumála um spillingu. Í nokkrum tugum tilvika hefðu þau endað í sakfellingu.

Spilling þekkir engin landamæri

Í yfirferð sinni sagði hann ennfremur að Alþjóðabankinn hefði upplýsingar um spillingu í framkvæmdum ekki  aðeins í verkefnum sem fjármögnuð væru á vegum bankans heldur einnig á vegum annarra aðila og ekki væri spillingin bundin við þróunarlönd eins og sumir teldu,  heldur hefðu komið upp fjölmörg tilvik í svokölluðum þróuðum ríkjum líka. Nefndi hann Bretland, Danmörku og Svíþjóð í því sambandi.
Spillingin tæki á sig ýmsar myndir en eitt af því sem hann nefndi var að í útboðum hefðu iðulega greinst mynstur þar sem greinilegt hefði verið að fyrirtæki hefðu bundist  samtökum um að skiptast á að koma með lægstu tilboðin, nokkuð sem minnir á olíusamráðið íslenska fyrir fáeinum árum.
Danskur verktaki með reynslu í verktakaheiminum sagði að aldrei  væri of  mikið brýnt fyrir ríkisstjórnum að tryggja gagnsæi og heiðarleika þegar samningar um framkvæmdir væru annars vegar og ætíð skyldi haft í huga að kostnaðar og kostnaðrvitund væru engin trygging fyrir heiðarleika  „cost is not a policeman" ! Indverji brást við eftir fyrirlestur Danans og sagði með nokkrum þjósti að allar ríkisstjórnir vildu tryggja góð, gagnsæ og heiðarleg vinnubrögð.
Þetta þótti mér hraustlega mælt og hljómaði engan veginn sannfærandi í mínum eyrum!

Fulltrúar almannahagsmuna ekki að sinna hlutverki sínu!

Á fyrsta degi ráðstefnunnar sátu þrjátíu  ráðherrar í pallborði - þar á meðal ég - þar sem farið var vítt og breitt yfir. Þetta var löng umræða - sannkölluð maraþon-umræða.
Enda þótt umræðan færi stundum út og suður þá var hún þemaskipt og vel stýrt með markvissum spurningum. Það var upplýsandi að heyra sjónarmiðin  vítt og breitt að í heiminum, frá Evrópu, Asíu, Afríku, Ástralíu  og Ameríku,um fjármögnunarleiðir, öryggi og umhverfisvernd.
Eitt þótti mér sláandi og það var hve ógagnrýninn mér þótti tónninn vera gagnvart aðkomu stórverktaka að uppbyggingu samgöngukerfa. Ekki svo að skilja að mér finnist óeðlilegt að verktakar komi að vegaframkvæmdum - líkt og á Íslandi þar sem 95% nýframkvæmda í samgöngukerfinu er samkvæmt úrboðum og unnar af verktökum.  
Hitt finnst mér vafasamt hve ágengir verktakar eru iðulega að koma sjálfum sér að sjálfum stjórnvelinum,vilja stýra fjárfestingarhraðanum (sem þeir vilja að sjálfsögðu hafa sem mestan!), verkferlum og jafnvel stefnumótun. Eftir að Einkaframkvæmd ( Private Finance Inititavive, PFI) varð óvinsæl vegna spillingar og hve óhagkvæm hún hefur reynst skattgreiðendum, var fundið upp hugtakið Samstarf hins opinbera og einkaaðila (Public Private Partnership, PPP).
Nánast allir ráðherrarnir í fyrrnefndu pallborði dásömuðu þetta síðarnefnda kerfi sem byggir á fjármögnunarmódelinu, framkvæmum nú, borgum seinna!
 

Bóluhugsun og stéttskipting á vegum

Sjálfum finnst mér þetta uggvænleg þróun. Tvennt kemur þar upp í hugann. Í fyrsta lagi hin fávíslega bóluhugsun sem Íslendingar þekkja svo vel illu heilli: Verum stórhuga, gjaldfrítt lán - framan af, þetta hlýtur að bjargast! Í öðru lagi fyrirsjáanleg stéttskipting í samgöngukerfunum. Aukin áhersla á að notendur borgi fyrir grunnsamgöngukerfið getur hæglega leitt til þess að greiðslur verði í senn réttlátari: Þeir sem nota kerfið borga fyrir það - réttlátt á sinn hátt eða þangað til við botnum setninguna með að segja hið óhjákvæmilega, þeir borga sem hafa efni á að nota kerfið! Hinir nota það einfaldlega ekki vegna efnaleysis.
Á þessi atriði benti ég í mínu framlagi við umræðuna. Ég sagði að fjárfestar ættu ekki að ráða fjárfestingarstefnunni, ekki heldur Alþjóðabankinn, jafnvel ekki ríkisstjórnir; þeir einir ættu að ráða sem ætlað væri að borga brúsann með sköttum sínum eða notendgjöldum. Síðan benti ég á að einkaframkvæmdin hefði reynst greiðendum dýrari og væri þess vegna spurt af þeirra hálfu hvers vegna ekki væri passað betur upp á hagsmuni greiðandans. Það væri hins vegar sú stefna sem ég vildi fylgja. Þá vék ég einnig að mikilvægi almenningssamgangna.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri stýrir umræðum. 

Í pallborði: Samgöngumálaráðherrar Ghana, Íslands, Indlands og Mexikó.

Frétt á vef Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27284