ELDMÓÐUR OG VISKA

Gamla góða Gufan eins og margir kalla Rás 1 Ríkisútvarpsins
tekur oft ágæta spretti enda með margt ágætt fólk innanborðs, t.d.
Hönnu G. Sigurðardóttur, dagskrárgerðarmann. Ég hlustaði á síðasta
þáttinn hennar, Fyrr og nú, reyndar einu og hálfu sinni í
gær. Hvers vegna einu og hálfu sinni? Jú, ég kom inn í þáttinn
þegar hann var um það bil hálfnaður en nýtti mér síðan ágæta
þjónustu RÚV og hlustaði á hann síðar um kvöldið á netinu.
Af því tilefni langar mig að ítreka enn einu sinni við RÚV þakklæti
fyrir að gera okkur hlustendum kleift að komast að
dagskrárefni með þessum hætti en furða mig jafnframt á því hve
stutt þessar tengingar eru látnar standa. Hví ekki allt efnið
aðgengilegt - alltaf. Nóg um það. Það er að segja þangað til næst!
Ég er ekki hættur.
Og þá að þætti Hönnu G. Sigurðardóttur. Hann fjallaði um
ræðumennsku fyrr og nú. Víða var leitað fanga, rætt við uppfræðara
í ræðumennsku, vitnað í gamlar ræður og spilaðir bútar. Þar á meðal
ræður tveggja manna sem mér þóttu afbragðsgóðar og í reynd vera
ágæt andleg vítamínsprauta í skammdeginu.
Önnur var áramótaávarp Andrésar Björnssonar, fyrrum útvarpsstjóra,
á gamlárskvöld árið 1970. Hin var barátturæða Magnúsar Björns
Ólafssonar, blaðamanns á Austurvelli, 24 janúar 2009, í hámarki
Búsáhaldabyltingarinnar. Báðar ræðurnar voru afbragðsgóðar, sem
áður segir, hvor með sínu sniði.
Áramótaávörp Andrésar Björnssonar voru magnaðar hugvekjur, djúpar
og viturlegar, öllum eftirminnilegar sem á hlýddu. Um það getur
hver og einn vitnað. Ávörpin voru á sínum tíma gefin út í
bókinni Töluð orð en ég hygg að sú bók sé nú illfáanleg í
bókabúðum. Þeim mun mikilvægara er að efnið sé tiltækt með öðrum
hætti. Ávarpið sem flutt var brot úr í þætti Hönnu G.
Sigurðardóttur fjallaði um mennsku og vélmennsku, um gleði og sorg
og mannlegar tilfinningar, Glöð og hrygg hjörtu, var
heitið sem Andrés gaf þessu ávarpi sínu í Töluðum
orðum.
Það þekkti ég sjálfur til Andrésar Björnssonar að þótt hann bæri
ekki tilfinnigar sínar á torg var hann mikill tilfinningamaður og
tjáði hann tilfinningar sínar ekkert síður í hinu ósagða en hinu
sagða og í blæbrigðum frásagnarinnar. Þótt ritaður texti Andrésar
sýni hugsun hans vel, verður helst að hlýða á hann til að
njóta boðskaparins að fullu. Ekki að undra, því Andrés
Björnsson þykir einhver besti ljóðaupplesari fyrr
og síðar.
Sjálfur segir Andrés um þetta í formála sínum að Töluðum
orðum: " Heitið Töuð orð hefur bókinni verið valið
til að leggja áherslu á að hugleiðingar þessar væru fremur ætlaðar
hlustendum en lesendum. Á þessu tvennu er alltaf munur, lítill eða
mikill. Ræðumaður sem skilar efni í framsögn beint til áheyrenda
skipar og miðlar efni sínu með öðrum hætti en sá sem semur
bók."
Ræða Magnúsar Björns var af örðum toga, herhvöt en einnig hún
byggði á djúpri og vel ígrundaðri hugsun. Magnús Björn talaði um
hina raunverulegu byltinu; ekki byltingu valdsins heldur
hugarfarsins. Hann talaði gegn valdi og valdbeitingu, um
"auðmýkt án undirgefni" og leitaði síðan til
dæma frá fyrri tíma sögu til að minna okkur á hvers við værum
megnug. Hann hvarf aftur til ársins 1918, þegar Íslendingar fengu
fullveldi, á sama tíma og Katla skók land og lýð og fjórða hvert
heimili Reykjavíkur varð að líkhúsi í Spænsku veikinni.
Þetta rifjaði hann upp til að minna úrtölumenn á að allt er
hægt: "Ef við gátum það þá, plagaðir af drepsótt og
hálfblindaðir af dagsbirtu eftir þúsund ára volæði í kolsvarta
myrkri torfbæjarins, þá getum við það hundrað sinnum núna,
lýst yfir fullveldi frá oki flokkakerfisins og stofnað nýtt
Lýðveldi á Íslandi..."
Ég hvet fólk il að hlusta á þáttinn en hann má nálgast hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/fyrr-og-nu/13122011