Fara í efni

FÁDÆMA ÓHEIÐARLEIKI FRÉTTASTOFU SJÓNVARPS

SJONVARPID GIF
SJONVARPID GIF
Hálf er það óþægileg tilfinning að treysta ekki fréttamiðli; að ekki sé minnst á sjálfan ríkisfjölmiðlinn, RÚV, sem við fjármögnum með lögbundnum gjöldum okkar. Eftir að reyna á eigin skinni hvernig fréttastofa Sjónvarpsins kom fram eftir að ég deildi á hana fyrir nokkru fyrir yfirborðskenndan fréttaflutning um lífeyrismál, voru viðbrögð fréttastofunnar ekki málefnaleg svör heldur hefnigirni í verki.

Ég hef rakið efnisatriði þessa máls hér á síðunni og gert grein fyrir vinnubrögðum fréttastofu Sjónvarps. Í stað þess að rétta sig af í fréttum var bent á það á vef Ríkisútvarpsins að ég hefði ekki formlega óskað eftir leiðréttingu! Þess vegna engin leiðrétting.

Heiðarlegur fjölmiðill leiðréttir rangfærslur sínar óumbeðið.

Síðastliðinn föstudag fékk ég eftirfarandi sms skilaboð frá fréttamanni Ríkisútvarpsins: „Fréttastofan vildi gjarnan fá annað viðtal við þig í dag út af lífeyrissjóðsmálum, frétt í gær og pistli þínum í dag."
Ég var staddur á Akureyri þennan dag en svaraði á laugardag: „Ég er til í viðtal megi það verða til að hið rétta komi fram."

Við þessu fékk ég engin viðbrögð og ákvað því að senda greinar til birtingar í dagblöðum á morgun til að skýra minn málstað.

Hvers vegna skyldi ég gera svona mikið úr þessu máli? Það er vegna þess að mér finnst það vera grafalvarlegt þegar dregin er upp mynd í fréttum beinlínis til að afvegaleiða fólk og gefa ranglega til kynna að einstaklingur sé ómerkur orða sinna. Fréttastofu Ríkisútvarpsins vil ég geta treyst. Ég hef nú hins vegar kynnst óheiðarleika á fréttastofu Sjónvarpsins og verð að játa að það er óþægileg tilfinning að sitja fyrir framan Sjónvarpið og hlusta á fréttir af flóknum málum, en treysta illa því sem þar er sagt.

Slóðir:
Sjónvarpsfréttir 4. febrúar: http://ruv.is/sarpurinn/frettir/04022012-7

Pistill ÖJ 4. febrúar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/domur-upp-kvedinn

Kastljós 7. febrúar: http://ruv.is/sarpurinn/kastljos/07022012

Sjónvarpsfréttir 9. febrúar: http://ruv.is/sarpurinn/frettir/09022012-0

Pistill ÖJ 9. febrúar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/sogulausir-frettamenn